„Við fjölluðum um það í fyrra, þegar við vorum að fara yfir innviðasöluna, að við værum að stefna að því að selja um fjórtán milljarða eignir. Þar var inni innviðasalan á óvirku farsímainnviðunum, sem var um 7 milljarðar, og salan á starfseminni í Færeyjum,“ sagði Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýn á fundinum. Vísaði hann þar til sölu á færeysku hlutdeildarfélagi fyrir einn milljarð króna síðasta vor.
Sýn gekk á dögunum frá sölu á óvirkum farsímainnviðum til DigitalBridge Group en endanlegt söluverð nam rétt tæpum sjö milljörðum króna. Bókfært verð eignanna sem voru seldar var 401 milljónir króna og söluhagnaður því rúmir 6,5 milljarðar.
„Við erum að stefna að því að selja fyrir um 6 milljarða í viðbót, við gætum alveg selt meira,“ útskýrði Heiðar.
„Þessi kerfi hjá okkur eru mjög öflug en í þessum tæknibransa þá afskrifum við þau gríðarlega hratt þannig að bókfært verð er lágt eins og sást í sölunni á óvirku innviðunum. Þarna værum við að selja einhvern smá hluta af virkum innviðum. Þeir afskrifast enn hraðar. Söluhagnaður af svona innviðasölu er yfirleitt 80 prósent plús.“
Fyrir áramót greiddi félagið upp tvo milljarða króna af langtímalánum við Landsbankann og einum milljarði var varið til lækkunar á öðrum vaxtaberandi skuldum. Þá mun hluti söluverðs verða notaður til fjárfestinga í rekstri en Sýn stefnir einnig að því að skila hluthöfum 2 milljörðum króna í gegnum endurkaup á eigin bréfum.
Vísir er í eigu Sýnar hf.