Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Þjóðverjar leiddu fyrstu mínútur leiksins. Norska liðið náði þó forystunni um miðbik fyrri hálfleiksins og héldu henni fram að hléi. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 14-12, Norðmönnum í vil.
Norska liðið jók forystu sína hægt og bítandi í síðari hálfleik og náði mest sex marka forskoti í stöðunni 25-19. Norska liðið hleypti því þýska aldrei nálægt sér eftir það og vann að lokum nokkuð öruggan fimm marka sigur, 28-23.
Norðmenn eru nú í öðru sæti milliriðils tvö með fjögur stig eftir þrjá leiki, líkt og Svíþjóð. Noregur mætir Evrópumeisturum Spánar í næsta leik og geta hrifsað toppsætið af Spánverjum með sigri þar.
Þjóðverjar sitja hins vegar í fjórða sæti riðilsins með tvö stig og liðið þarf nauðsynlega á sigri gegn Svíum í næsta leik að halda til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum.