Þeir vogunarsjóðir sem fjárfesta einkum í innlendum skráðum hlutafélögum skiluðu þannig allir um eða vel yfir 50 prósenta ávöxtun á árinu 2021. Til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni um liðlega 33 prósent.
Annað árið í röð voru það tveir sjóðir í rekstri Akta, sem er stýrt af þeim Erni Þorsteinssyni og Fannari Jónssyni, sem skiluðu sjóðsfélögum sínum hæstu ávöxtuninni, samkvæmt samantekt Innherja á gengi allra vogunarsjóða í fyrra. Sjóðurinn HL1, sem er um sex milljarðar króna að stærð og fjárfestir í hlutabréfum, var með 83 prósenta ávöxtun á meðan gengi HS1, sem fjárfestir bæði í innlendum skuldabréfum og hlutabréfum og er um 8 milljarðar að stærð, hækkaði um liðlega 78 prósent. Árangur sjóðanna er hins vegar lítillega lakari en árið áður þegar þeir skiluðu báðir yfir 90 prósenta ávöxtun.
Á árinu 20221 komu sjóðir í rekstri Akta – HL1 og HS1 ásamt hlutabréfasjóðnum Akta Stokkur sem er opinn almennum fjárfestum – meðal annars að stofnun flugfélagsins Play þegar þeir voru í hópi leiðandi fjárfesta í lokuðu 6 milljarða hlutafjárútboði sem kláraðist í apríl. Þegar mest var í september fór Akta með yfir 13 prósenta hlut í Play en hefur síðan þá selt nærri helming bréfanna á sama tíma og sjóðastýringarfyrirtækið hefur verið að byggja upp drjúga stöðu í Icelandair.
Á síðasta ársfjórðungi 2021 fóru sjóðir Akta einnig auka við hlut sinn í Origo, Sýn og VÍS og fara þeir í dag með samanlagt um eða yfir 5 prósenta hlut í öllum þessum félögum.
Sá sjóður sem skilaði þriðja besta árangrinum í fyrra var ÍS-5, sem er í stýringu Stefnis og er stærsti vogunarsjóður landsins með eigið fé upp á 18,2 milljarða króna, en ávöxtun hans var liðlega 74 prósent. Það er mikill viðsnúningur frá því á árinu 2020 þegar ávöxtun ÍS-5 var tæplega 8 prósent – aðeins einn vogunarsjóður skilaði lélegri árangri á því ári – en helstu eignir sjóðsins í árslok 2021, samkvæmt upplýsingablaði til sjóðsfélaga sem Innherji hefur undir höndum, voru í Arion, fjárfestingafélaginu Stoðum og Eimskip. Eign ÍS-5 í þeim félögum var um þriðjungur heildareigna sjóðsins.
Sjóðirnir Alpha hlutabréf, Algildi og Kvika – IHF skiluðu einnig allir betri afkomu í fyrra en á árinu 2020 og var ávöxtun þeirra á bilinu 56 prósent til tæplega 70 prósent. Sama má segja um sjóðinn Heklu, sem er í stýringu Landsbréfa og er um 5 milljarðar króna að stærð, en ávöxtun hans á liðnu ári var rétt undir 50 prósentum.
Vogunarsjóðir standa einungis fagfjárfestum til boða – ekki almenningi – vegna þess hversu áhættusöm fjárfesting í þeim getur verið. Slíkir sjóðir hafa ríkari heimildir en hefðbundnir verðbréfasjóðir til lántöku – stundum nefnd gírun – og nýta sér afleiður, meðal annars valréttarsamninga og framvirka samninga, til að skortselja ákveðna hlutabréfa- eða skuldabréfaflokka, sem og að taka gíraða gnóttstöðu sem getur numið fimmföldu eigið fé. Sjóðirnir miða árangur sinn við tilteknar vísitölur á markaði og yfirleitt nemur árangurstengd þóknun þeirra sem stýra þeim 20 prósentum umfram það viðmið til viðbótar við árlega umsýsluþóknun sem er oft um 2 prósent.
Í tölum um ávöxtun vogunarsjóðanna í fyrra er búið að taka tillit til allra þóknana, meðal annars þær sem koma til vegna hagnaðar umfram viðmiðunarvísitölur, en ljóst er að sumir þeirra sjóða sem eru með árangurstengdar þóknanir munu bókfæra hjá sér verulegar tekjur vegna góðs árangurs í fyrra. Á fyrri árshelmingi síðasta árs nam hagnaður Akta sjóða, sem var þá með um 60 milljarða eignir í stýringu, um 1.650 milljónum fyrir skatt borið saman við aðeins 88 milljónir á sama tímabili árið áður. Sá mikli hagnaður kom einkum til vegna árangurstengdra þóknana sem voru þá tekjufærðar eftir góðan árangur sjóða félagsins á árinu 2020.
Heimildir vogunarsjóða til að gíra skort- eða gnóttstöður sem þeir taka í skráðum hlutabréfum eða skuldabréfum eru mismiklar og eins getur verið talsverður munur á því hversu mikið sjóðirnir nýta sér þær heimildir hverju sinni. Þeir sjóðir sem eru stundum mikið gíraðir í fjárfestingum sínum, eins og meðal annars vogunarsjóðirnir HL1 og HS1 hjá Akta, geta þá á sama skapi séð fram á mun meiri og ýktari sveiflur á gengi þeirra – bæði til hækkunar og lækkunar.
Þeir vogunarsjóðir sem fjárfesta einkum í innlendum skuldabréfum skiluðu sjóðsfélögum sínum mun lægri ávöxtun á liðnu ári, eins og gefur að skilja, en fjárfesting í skuldabréfum hefur almennt gefið lítið af sér samhliða lágu vaxtastigi. Aðalvísitala skuldabréfa í Kauphöllinni hér heima hækkaði þannig aðeins um 1,2 prósent á árinu 2021.
Sjóðirnir Akta SK1 og Fixed Income Opportunity Fund (FIOF), sem er 2 milljarðar að stærð og í rekstri Landsbréfa, skiluðu báðir ávöxtun umfram skuldabréfavísitöluna – annars vegar 6,9 prósent og hins vegar 2,35 prósent – á meðan gengi vogunarsjóðsins Iceland Fixed Income Fund (IFIF) hjá Kviku eignastýringu lækkaði um 6,3 prósent á árinu 2021.
Þetta er í fyrsta sinn frá stofnun IFIF, sem er stýrt af Agnari Tómasi Möller, vorið 2009 sem sjóðurinn endar árið með neikvæða afkomu en árleg ávöxtun hans yfir tímabilið hefur numið að meðaltali 15,4 prósentum. Á árinu 2020 skilaði sjóðurinn yfir 31 prósenta ávöxtun sem var besti árangur hans frá stofnun. Í árslok 2021 var stærð IFIF 14,3 milljarðar króna borið saman við rúmlega 18 milljarða árið áður.
Hröð hækkun vaxta „greiddi sjóðnum þungt högg"
Í fjárfestabréfi sem Agnar sendi sjóðsfélögum í byrjun þessa árs, sem Innherji hefur undir höndum, segir að það hafi verið „mikil vonbrigði að skila fjárfestum jafnslakri“ ávöxtun. Sjóðurinn hafi lagt upp með þá sýn í upphafi árs 2021 að atvinnuleysi, sem þá mældist um 11 prósent, myndi lækka hægt á sama tíma og verðbólga myndi ekki ná að rísa markvert í slíkum efnahagsbata. „Það myndi leiða til óbreyttra vaxta Seðlabankans á árinu, sem þá voru 0,75 prósent, sem myndu taka að rísa hægt í fyrsta lagi árið 2022 – sem var í ágætu samræmi við þann tón lesa mátti frá Seðlabankanum á þeim tíma,“ ritar Agnar.
Sú spá gekk ekki eftir og viðspyrna efnahagslífsins hefur reynst mun kraftmeiri sem hefur meðal annars leitt til þess að atvinnuleysi er komið undir 5 prósent og orðið lægra en fyrir faraldurinn. Það, ásamt hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum, setti af stað vaxtahækkunarferli Seðlabankans í fyrra sem hefur orsakað mikla hækkun nafnvaxta á skuldabréfamarkaði, einkum á styttri skuldabréfavöxtum.
„Þótt sjóðurinn hafi bæði haldið á stöðum í óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum, voru breytingar ekki gerðar í tíma þegar hin mikla og hraða hækkun vaxta og vaxtavæntinga fór af stað um miðjan október, bæði hér heima og erlendis, sem greiddi sjóðnum þungt högg,“ segir í fjárfestabréfinu.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.