Í hugleiðingum veðurfræðings segir að reikna megi með norðan og norðvestan fimmtán til 23 metrar á sekúndu og snjókomu og því munu viðvaranir vegna hríðar taka gildi fyrir norðanvert landið undir kvöld.
„Í nótt og í fyrramálið má síðan búast við norðvestan storm á Austfjörðum og á Suðausturlandi með tilheyrandi vindaviðvörunum en á sama tíma dregur úr vindi í öðrum landshlutum.
Á morgun er svo von á suðvestan 5-13 m/s og él en þá léttir að sama skapi til norðaustan- og austanlands.
Hiti verður yfirleitt í kringum frostmark í dag og á morgun, en þó verður heldur kaldara meðan norðanáttin verður ríkjandi á landinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Gular viðvaranir:
- Vestfirðir. Norðan hvassviðri eða stormur og hríð. 28. jan. kl. 17:00 – 22:00
- Strandir og Norðurland vestra. Norðan og norðvestan hvassviðri eða stormur og hríð. 28. jan. kl. 17:00 – 23:00.
- Norðurland eystra. Vestan og norðvestan hvassviðri eða stormur og hríð. 28. jan. kl. 17:00 – 29. jan. kl. 05:00.
- Austurland að Glettingi. Vestan og norðvestan hvassviðri eða stormur og hríð. 28. jan. kl. 20:00 – 29 jan. kl. 06:00
- Austfirðir. Vestan stormur eða rok. 28. jan. kl. 21:00 – 29. jan. kl. 09:00
- Suðausturland. Norðvestan stormur eða rok. 28. jan. kl. 21:00 – 29. jan. kl. 10:00
-
Spákort fyrir klukkan 17 í dag.Veðurstofan
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og bjart að mestu, en norðvestanstormur og él austantil um morguninn. Þykknar upp með éljum vestanlands eftir hádegi, en léttir til og dregur hratt úr vindi austanlands. Frost 0 til 8 stig.
Á sunnudag: Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og él, en bjart með köflum norðaustanlands. Frost 2 til 10 stig. Vaxandi vestanátt vestantil um kvöldið.
Á mánudag: Vestlæg átt, víða dálítil él og kalt í veðri. Vaxandi suðaustanátt með snjókomu seinnipartinn.
Á þriðjudag: Norðanátt með éljum og kólnandi veðri.
Á miðvikudag og fimmtudag: Norðlæg átt og snjókoma norðantil en bjartviðri sunnan heiða. Frost um allt land.