Héraðsdómur Reykjaness dæmdi hann í tólf mánaða fangelsi sem bætist við fyrri dóm þar sem hann var dæmdur í sex ára fangelsi. Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari staðfestir þetta við Vísi en mbl.is greindi fyrst frá.
Í nóvember dæmdi Landsréttur Jóhannes Tryggva í ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum. Tólf mánaða fangelsið nú er hegningarauki og hefur Jóhannes því nú verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir brot sín gegn fimm konum.
Lögmaður Jóhannesar Tryggva lýsti því yfir við dómsuppkvaðningu að sakfellingu nú yrði áfrýjað til Landsréttar.
Vísir fjallaði ítarlega um málið fyrr í mánuðinum.
Jóhannes Tryggvi var ákærður fyrir nauðgun, í starfi sínu sem nuddari dagana 3. og 5. janúar 2012, á meðferðarstofu sinni í Reykjavík, með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola, án hennar samþykkis með því að káfa á kynfærum hennar, rassi og brjóstum og setja fingur inn í leggöng hennar, henni að óvörum, þar sem hún lá léttklædd á nuddbekk. Þá sagði í ákæru að hann hafi hann beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að misnota það traust sem hún bar til hans.
Fjöldi vitna var kallaður til í málinu sem þótti sögulegt, þar sem þinghald þess var opið, sem er ekki venjan þegar kemur að kynferðisbrotum.