Neymar var ekki í hóp hjá PSG en hann er ekki enn þá búinn að ná sér af meiðslum. Messi var í byrjunarliði Parísar og spilaði allar rúmlega 120 mínúturnar á meðan Mbappe byrjaði á bekknum en kom inn á fyrir Icardi eftir klukkutíma leik. Þrátt fyrir sóknarþunga PSG ásamt því að vera með boltann næstum 70% af leiknum náðu þeir ekki að koma marki í leikinn á 90 mínútum né í framlengingu.
Leikurinn fór því í vítaspyrnukeppni og alla leið í bráðabana þar sem hollenska ungstirnið Xavi Simons var fyrir því óláni að vera skúrkur PSG með því að klúðra sinni spyrnu á meðan Dante skoraði fyrir Nice. PSG skoraði úr fimm vítaspyrnum af sjö á meðan Nice skoraði úr sex. Messi og Mbappe skoruðu úr sínum spyrnum.
Gestirnir í Nice fara því áfram í 8-liða úrslit þar sem þeir munu mæta Marseille.