Aldís er gestur í fyrsta þættinum af nýrri þáttaröð af Snyrtiborðið með HI beauty. Aldís er ein skærasta stjarna þjóðarinnar og hefur vakið mikla athygli fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttum á borð við Kötlu og Svörtu sanda. Hún var sú fyrsta í vinkonuhópnum til að byrja að nota förðunarvörur en hinar fylgdu fljótt á eftir.
„Mjög oft vorum við heima hjá mér að gera okkur til og þá var ég að gera eyeliner því að ég náði eiginlega strax að gera góðan eyeliner. Ég hef alltaf getað gert það.“
Eins og sjá má í þættinum er Aldís ótrúlega snögg að skella á sig eyeliner, eitthvað sem margar eiga erfitt með. Segir hún að leyndarmálið sé að vera ekki hræddur við það.
„Þetta er bara lína.“
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Hyljari skiptir Aldísi miklu máli og ef hún hefur tíma brettir hún á sér augnhárin og setur lit í augabrúnirnar. Í þættinum sagði hún frá nýju húðvandamáli sem hún er að vinna í að finna lausn á.
„Ég fékk rósroða þegar ég varð þrítug, djöfulsins dónaskapur.“
Í þættinum talar hún líka um retinol, gervibrúnku, tölvuleiki, vegan snyrtivörur og svo sýnir hún hvernig hún nær fullkomnum krullum. Förðunarorð þáttarins er auðvitað á sínum stað líkt og í fyrstu þáttaröðinni og svo eru gestir þáttarins líka látnir taka þátt í áskorun í hverjum þætti.