Handbolti

Orri Freyr og félagar enn með fullt hús stiga | Bjarni skoraði fimm í öruggum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í Elverum hafa unnið alla 17 leiki sína í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í Elverum hafa unnið alla 17 leiki sína í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í skandinavísku deildunum í handbolta í dag. Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í Elverum eru enn með fullt hús stiga á toppi norsku deildarinnar, Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði fimm mörk fyrir Skövde í Svíþjóð og Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG unnu í Danmörku.

Orri Freyr og félagar í Elverum unnu sannfærandi sjö marka sigur gegn verðandi ofurliðinu Kolstad frá Þrándheimi, 37-30.

Orri skoraði þrjú mörk fyrir Elverum, en liðið trónir á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir 17 umferðir.

Þá skoraði Bjarni Ófeigur Valdimarsson fimm mörk fyrir Skövde í níu marka sigri liðsins gegn Ålingsas í sænsku deildinni. Bjarni og félagar sitja í öðru sæti deildarinnar með 24 stig eftir 17 umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Savehof.

Að lokum unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG fimm marka útisigur gegn Skjern í dönsku deildinni. Viktor sat stærstan hluta leiksins á bekknum, en GOG er nú með átta stiga forskot á toppi deildarinnar eftir 18 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×