Gular viðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum, sem staðar fram á kvöld.
Það verður mjög breytilegt veður milli landshluta í dag, minnkandi suðvestanátt um landið sunnanvert, en áfram snjókoma eða slydda fram á kvöld.
Gengur í norðaustan hvassviðri eða storm um landið norðvestanvert með morgninum með éljagangi, skafrenningi og lélegu skyggni, en um landið norðaustanvert snýst vindur smám saman til norðlægrar áttar með éljum. Bætir aftur í vind sunnan og suðvestanlands í nótt með skafrenningi.
Veðrið gengur síðan niður á morgun með minnkandi norðanátt. Léttir til um landið sunnan- og vestanvert, en áfram dálítil él um landið norðaustanvert. Kólnar nokkuð hratt og má búast við talsverðu frosti annað kvöld og aðra nótt og ekki ólíklegt að frost verði á bilinu 15 til 20 stig inn til landsins. Síðan tekur við mun rólegra vetrarveður með dálitlum éljum og dregur úr frosti.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðlæg átt 13-20 m/s og él, en úrkomulítið sunnan heiða. Dregur úr vindi og ofankomu þegar líður á daginn, fyrst vestantil á landinu og léttir síðan til. Ört kólnandi, frost 4 til 15 stig um kvöldið, kaldast inn til landsins.
Á fimmtudag: Vestlæg átt, 8-13 m/s og dálítil él um landið vestanvert, en bjart fyrir austan. Dregur heldur úr frosti, einkum vestast.
Á föstudag: Fremur hæg suðlæg átt og stöku él, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 10 stig. Gengur í austanstrekking með slyddu eða snjókomu á S-verðu landinu um kvöldið og hlýnar.
Á laugardag: Austan- og norðaustanátt og slydda með köflum sunnan- og austantil, stöku él fyrir norðan, en yfirleitt þurrt vestanlands. Hiti um og undir frostmarki.
Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir vestlæga eða breytilega átt. Dálítil él, en úrkomulítið fyrir austan. Heldur kólnandi veður.