Ibrahimovic var heppinn með meiðsli nær allan sinn feril en sömu sögu er ekki hægt að segja frá síðustu árum hans. Hann meiddist illa á hné þegar hann var hjá Manchester United árið 2017 og hefur síðan verið að meiðast reglulega undanfarin ár.
Zlatan leggur hins vegar mikið á sig að halda sér í formi og eyðir kannski orðið meiri tíma í líkamsræktarsalnum en á fótboltavellinum. Það mætti í það minnsta halda það eftir að kappinn setti inn nýtt myndband af sér sem má sjá hér fyrir neðan.
Myndbandið kom inn á netið eftir að liðsfélagar hans í AC Milan höfðu unnið 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Internazionale og minnkað forskot Inter manna á toppnum í aðeins eitt stig. Franski framherjinn Olivier Giroud skoraði bæði mörkin.
Daginn eftir setti Zlatan inn myndbandið af sér og bað um þolinmæði. Hann er að glíma við meiðsli á hásin sem hélt honum líka frá keppni í september.
Zlatan hélt upp á fertugsafmælið sitt í október síðastliðnum en það er óhætt að segja að hann líti hvorki út fyrir að vera fertugur eða meiddur í þessu myndbandi sínu.
Sænski framherjinn er frábæru formi og það eru ekki margir á hans aldri sem geta montað sig af kviðvöðvum eins og hann sýnir þarna.
Zlata hefur líka skilað fínum tölum á tímabilinu en hann er sem dæmi með átta mörk i fimmtán deildarleikjum. Hann náði samt ekki að skora í fjórum leikjum í Meistaradeildinni.