Salah og félagar hans í egypska landsliðinu töpuðu úrslitaleik Afríkukeppninnar á sunnudagskvöldið þar sem Senegal hafði betur í vítaspyrnukeppni. Salah átti að taka síðustu vítaspyrnuna en Sadio Mane tryggði Senegal sigurinn áður en Mo fékk að taka sitt víti.
Á meðan Sadio Mane flaug heim til Senegal með bikarinn þá var Salah á hraðferð heim til Liverpool.
Liverpool sýndi þetta myndband hér fyrir neðan þar sem sjá má Salah hlaupa út á æfingu liðsins í dag. „Hann er mættur aftur,“ skrifaði Liverpool fólkið í færslunni.
Salah hefur farið á kostum með Liverpool liðinu á leiktíðinni og er langmarkahæsti leikamður deildarinnar með sextán mörk. Hann er líka með níu stoðsendingar sem skilar honum í annað sæti stoðsendingalistans.
Salah hefur alls komið með beinum hætti að 25 mörkum í tuttugu deildarleikjum Liverpool á leiktíðinni en það þýðir skapað mark á 72 mínútna fresti.