Umfjöllun og viðtal: Keflavík - Breiðablik 126 - 80 | Keflavík setti upp flugeldasýningu

Andri Már Eggertsson skrifar
Dominykas Milka skoraði 30 stig í kvöld.
Dominykas Milka skoraði 30 stig í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð komst Keflavík aftur á sigurbraut í Subway-deild karla í körfubolta. Keflavík átti stórkostlegan fyrri hálfleik þar sem liðið skoraði 74 stig. Á endanum voru 46 stig sem skildu liðin að, lokatölur 126-80.

Eftir þriggja leikja taphrinu voru Keflvíkingar staðráðnir í að sýna úr hverju þeir eru gerðir. Fyrri hálfleikur heimamanna var magnaður. Keflavík skoraði 74 stig á tuttugu mínútum.

Breiðablik byrjaði leikinn örlítið betur og komst fjórum stigum yfir um miðjan 1. leikhluta en heimamenn voru ekki langt á eftir. Keflavík hrökk í gang og endaði fyrsta leikhluta á að gera níu stig í röð en það var aðeins lognið á undan storminum.

Annar leikhluti Keflavíkur var ótrúlegur. Heimamenn gerðu körfur í öllum regnbogans litum. Samlandarnir Darius Tarvydas og Dominykas Milka fóru á kostum og gerðu sitthvor átján stigin í fyrri hálfleik.

Næsta sunnudag fer fram Stjörnuleikurinn í NBA-deildinni en Keflvíkingar tóku forskot á sæluna og skoruðu 74 stig í fyrri hálfleik á meðan gerði Breiðablik 49 stig.

Það er ekki hægt að fjalla um að Keflavík hafi slakað á bensíngjöfinni í 3. leikhluta en leikhlutinn var þó töluvert eðlilegri í stigum miðað við fyrri hálfleik. Darius Tarvydas hélt áfram að spila vel og henti í hollí-hú troðslu undir lok þriðja leikhluta.

Gestirnir frá Kópavogi voru löngu farnir að bíða eftir að leikurinn myndi klárast og þeir gætu komið sér heim. Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, leyfði öllum í hópnum að spila í seinni hálfleik. 

Líkt og Breiðablik notaði Keflavík alla sína leikmenn og tókst öllum að skora í leikmannahópi heimamanna. Varamannabekkur Keflavíkur skoraði alls 47 stig.

Keflavík vann á endanum 46 stiga sigur 126-80. 

Af hverju vann Keflavík?

Það var ekki veikan blett á leik Keflavíkur að finna. Fyrri hálfleikur heimamanna var ótrúlegur þar sem allt fór ofan í sem endaði með 74 stigum á tuttugu mínútum.

Keflavík vann alla leikhlutana og gerði vel í að stöðva sóknarleik Breiðabliks frá fyrstu til þeirra síðustu.

Hverjir stóðu upp úr?

Darius Tarvydas byrjaði á bekknum hjá Keflavík en kom inn á og lét mikið til sín taka. Darius endaði með tvöfalda tvennu þar sem hann skoraði 29 stig og tók 11 fráköst. 

Dominykas Milka var stigahæstur á vellinum með 30 stig. Milka tók einnig 9 fráköst.

Hvað gekk illa?

Breiðablik sá aldrei til sólar í leiknum. Boltinn gekk illa milli manna og gaf Breiðablik aðeins 15 stoðsendingar sem var þremur stoðsendingum meira en Hörður Axel Vilhjálmsson gaf.

Vítanýting Breiðabliks var mjög léleg. Breiðablik endaði með 56 prósent nýtingu á vítalínunni og kórónaði Sveinbjörn Jóhannesson slakan dag Breiðabliks á vítalínunni með loftbolta. 

Hvað gerist næst?

Breiðablik fer til Þorlákshafnar næsta föstudag og mæti Þór Þorlákshöfn klukkan 18:15.

Keflavík fær Þór Akureyri í heimsókn næsta fimmtudag klukkan 19:15.

Hjalti: Það skiptir máli að það sé gleði í liðinu

Helgi Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður eftir leik.Vísir/Bára Dröfn

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var afar ánægður með sigurinn.

„Það var orka og gleði í liðinu, það skiptir miklu máli að menn hafi gaman af því sem þeir gera. Við vorum þéttir varnarlega og sóknarlega leituðum við mikið inn í teig sem skilaði auðveldum sniðskotum,“ sagði Hjalti Þór eftir leik.

Keflavík fór á kostum í fyrri hálfleik og skoraði 74 stig sem Hjalta þótti mjög ánægjulegt. 

„Fyrri hálfleikur var mjög skemmtilegur, við hittum vel og fengum körfur þar sem við vildum. Það var góð stemmning í húsinu og voru allir léttir ljúfir og kátir,“ sagði Hjalti að lokum.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira