Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - KR 90-79 | Stjarnan hleypti KR nálægt sér en aldrei of nálægt

Sæbjörn Steinke skrifar
Stjarnan vann mikilvægan sigur gegn KR-ingum í kvöld.
Stjarnan vann mikilvægan sigur gegn KR-ingum í kvöld. Vísir/Bára

KR heimsótti Mathús Garðabæjarhöllina í kvöld og mætti þar heimamönnum í Stjörnunni. Heimamenn fóru með ellefu stiga sigur og unnu þar með sinn þriðja sigur í röð. Stjarnan fór upp í fimmta sæti deildarinnar en KR er áfram í tíunda sæti en á leik og leiki til góða á liðin fyrir ofan sig.

Stjarnan byrjaði leikinn mikið mun betur í kvöld og var ljóst að heimamenn ætluðu að selja sig dýrt. KR-ingar komu á sama tíma flatir til leiks og voru allan fyrri hálfleikinn næstbesta liðið á vellinum. Stjarnan tók nánast öll fráköst sem voru í boði og hirti alla lausa bolta. Staðan var 55-36 í hálfleik og í byrjun seinni hálfleiks fór munurinn upp í 21 stig þegar Stjarnan nýtti tvö tæknivíti sem KR hafði fengið eftir að leiktími fyrri hálfleiks rann út.

Vesturbæingar voru ósáttir að ekkert var dæmt þegar Björn Kristjánsson féll til jarðar og á auglýsingaskilti fyrir aftan aðra körfuna eftir að hafa skorað úr sniðskoti. Tómas Þórður Hilmarsson reyndi að verjast Birni og vildu gestirnir sjá villu dæmda á Tómas. Ekkert var dæmt og í kjölfarið sauð upp úr. Brynjar Þór Björnsson fékk á sig tæknivillu og þá lét Isaiah Manderson, nýr bandarískur leikmaður KR, henda sér út úr húsi með því að fá sína aðra tæknivillu. Fyrri villuna hafði hann fengið fyrir að klappa lófunum hátt þegar Stjarnan tók þriggja stiga skot fyrr í hálfleiknum.

Hálfleiksræða Helga Más Magnússonar, þjálfara KR, hefur verið góð því gestirnir mættu allt öðruvísi stemmdir til leiks í seinni hálfleiknum. Baráttan var til fyrirmyndar og minnst náðu þeir að minnka muninn niður í fimm stig en þá bættu heimamenn aftur í og kláruðu leikinn án þess að þurfa mikið að stressa sig á lokamínútu leiksins.

Sigur Stjörnunnar var sanngjarn en KR getur tekið seinni hálfleikinn úr þessum leik og byggt ofan á hann.

Af hverju vann Stjarnan?

Í fyrri hálfleik var himinn og haf milli liðanna og Stjarnan náði að byggja upp öruggt forskot. Klisjukennt kannski en heimamenn unnu baráttuna og þar lá í raun munurinn í fyrri hálfleiknum og þann mun náði KR ekki að vinna upp í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Robert Turner átti virkilega fínan leik. Hann setti niður stór skot og gat náð í stig þegar hann vildi. Í ofanálag tók hann tíu fráköst. Það má í rauns segja að allir sem spiluðu hjá Stjörnunni hafi átt góðan leik. Shawn Hopkins skoraði átján stig, tók tólf fráköst, varði fjögur skot, stal tveimur boltum og missti aldrei boltann í leiknum.

Hjá KR var Björn Kristjánsson bestur, skoraði sautján stig, tók sex fráköst, stal tveimur boltum og var með 66% þriggja stiga nýtingu.

Hvað gekk illa?

Nánast allt hjá KR gekk illa í fyrri hálfleik, sérstaklega þegar kom að því að ná í lausu boltana. Í seinni hálfleik gekk illa hjá Stjörnunni að slökkva á KR-ingum, hleyptu þessu kannski í óþarflega mikla spennu en áhorfendur fengu á móti að upplifa smá spennu.

Hvað gerist næst?

Eftir morgundaginn verður tveggja vikna frí á deildinni og svo mæta liðin aftur til leiks í byrjun mars. KR mætir ÍR á heimavelli í næstu umferð og Stjarnan fer norður á Sauðárkrók.

Bjössi Kristjáns: Óþarfi að æsa sig svona mikið

Björn Kristjánsson segir að menn hafi æst sig fullmikið í leiknum í kvöld.Vísir/Elín Björg

„Við komum flatir út í leikinn á meðan hittu þeir vel og voru þægilegir. Við náðum að minnka muninn í seinni hálfleik en það var ekki nóg,“ sagði Björn Kristjánsson, leikmaður KR.

Hann hefði verið ánægður með seinni hálfleikinn ef leikurinn hefði unnist. Eins og kemur fram hér að ofan átti sér atvik stað í lok fyrri hálfleiks. Hvað gerðist?

„Ég var ekki í rosalega góðu jafnvægi en það var smá snerting. Af því að ég var í lélegu jafnvægi þá flýg ég aðeins áfram. Ég var ekkert að pæla í því hvort þetta væri villa en svo varð eitthvað meira rugl þegar mönnum var hent út og tæknivillur dæmdar. Það er óþarfi að æsa sig svona mikið.“

Bjössi setti niður nokkrar þriggja stiga körfur af löngu færi í leiknum.

„Ég er að hitta betur því nær miðju sem ég er,“ sagði kappinn léttur.

Í lok viðtals var hann spurður út í fyrsta þáttinn af seríunni um Jón Arnór Stefánsson.

„Mér fannst þátturinn góður, ég var sérstaklega spenntur hvernig tímabilið í fyrra var. Það var sérstaklega skemmtilegt hvernig þetta endaði, við unnum þá og Jón að gasa inn í klefa. Það kom smá glott á mig þarna. Ég er ekki ennþá búinn að venjast því að sjá hann í Valstreyjunni, svarthvíta fer honum betur,“ sagði Bjössi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira