Innlent

Tjaldur slær met: Fór beint að hitta makann

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Methafinn LL-CO og makinn sameinuð við óðalsvarnir.
Methafinn LL-CO og makinn sameinuð við óðalsvarnir. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi

Tjaldurinn er ansi snemma á ferðinni þetta árið en tjaldur sem hefur vetursetu á Ermarsundseyjum sást í Kjós í gær. Fuglinn virðist hafa flogið í beinustu leið í átt að maka sínum eftir veturinn.

Tjaldurinn sló eigið met frá því í fyrra en þá kom hinn umræddi fugl hingað til lands þann 18. febrúar, tveimur dögum síðar en nú. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi hefur fylgst með fuglinum en tjaldarnir eru merktir með sérstökum lithringjum auk áletrunar. 

Í færslu á Facebook segir rannsóknasetrið að þeim sé ekki kunnugt um að íslenskur landfugl sem dvalist hafi erlendis yfir vetur hafi sést svo snemma hér á landi. 

Hitti makann aftur

Böðvar Þórisson verkefnastjóri hjá rannsóknasetrinu segir óvenjulegt að íslenskir landfuglar sem dvalist hafa erlendis að vetrarlagi láti sjá sig svo snemma árs. Um þriðjungur tjaldstofnsins hefur vetursetu hér á landi en hinir fuglarnir fljúga út til Bretlands.

Fuglinn ber skráningarheitið LL-CO og hefur rannsóknasetrið fylgst með honum undanfarið.

„Makinn er með vetursetu á Íslandi, við vitum það, hann er merktur líka. Hann er að þvælast þarna nálægt óðalinu og niður í Grunnafjörð en hin er á Ermarsundseyjum. Báðir fuglarnir eru merktir þannig að við þekkjum þá.“

Kemur hann og hittir maka sinn þá aftur?

„Já, ég sá makann á óðalinu 3. febrúar. Hann hafði verið í Grunnafirði tveimur dögum áður,“ segir Böðvar. Aðspurður segir hann að vel geti verið að makinn hafi beðið eftir methafanum.

Óvíst hvað valdi

Böðvar kveðst ekki hafa skýringar á því hvers vegna tjaldurinn hafi verið svona snemma á ferðinni þetta árið. Margt geti spilað inn í en tíminn verði að leiða í ljós hvort að um einhverja sérstaka þróun sé að ræða.

„Við höfum verið að sjá fugla sem við vitum að eru erlendis koma svona mánaðamótin febrúar eða mars. Svo eru þeir að koma í mars og við vitum að sumir fuglar eru enn þá erlendis seinni partinn í mars,“ segir Böðvar og býst við því að fyrsta bylgja farfuglanna komi nú um mánaðamótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×