Erlent

Saka Kínverja um að hafa lýst upp herþotu með leysigeisla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kiínversku herskipin tvö sem áströlsk yfirvöld segja að hafi verið á vettvangi þegar leysigeisla var beint að ástralskri herflugvél.
Kiínversku herskipin tvö sem áströlsk yfirvöld segja að hafi verið á vettvangi þegar leysigeisla var beint að ástralskri herflugvél. Ástralski herinn.

Áströlsk hernaðaryfirvöld eru ekki par sátt með kollega þeirra frá Kína, eftir að kínverskt herskip beindi kraftmiklum leysigeisla að ástralskri herþotu.

Atvikið átti sér stað í síðustu viku undan ströndum Ástralíu, í Arafura-hafinu, hafsvæði í Kyrrahafinu.

Þar var áströlsk P-8A flugvél við eftirlit þegar herskip á vegum kínverska sjóhersins er sögð hafa lýst upp flugvélina með leysigeisla.

Áströlsk yfirvöld segja atvikið hafa verið alvarlegt öryggisatvik sem hafi getað ógnað lífi og heilsu flugmanna flugvélarinnar.

Í yfirlýsingu frá ástralska hernum er hegðunin fordæmd sem „óörugg og ófagmannleg hernaðarleg hegðun“, líkt og það er orðað.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ástralir saka Kínverja um að beina leysigeislum að flugvélum. Árið 2019 greindu ástralskir flugmenn frá því að leysigeislum hafi ítrekað verið beint að flugvélum þeirra er flogið var yfir Suður-Kínahaf.

Nokkur spenna hefur færst í hernaðarleg samskipti Kína og Ástalíu að undanförnu, ekki síst eftir að greint var frá því að Ástralir gerðu samkomulag við Breta og Bandaríkjamenn um kaup á kjarnorkukafbátum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×