Handbolti

Sjóðheitur Bjarki skoraði 15 en þurfti að sætta sig við jafntefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu.
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu. EPA-EFE/Petr David Josek

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo þurftu að sætta sig við jafntefli í miklum markaleik er liðið tók á móti Nantes í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 37-37, en Bjarki skoraði hvorki meira né minna en 15 mörk fyrir Lemgo.

Allt frá fyrstu mínútu var allt í járnum og liðin skiptust á að skora. Gestirnir í Nantes virtust þó hálfu skrefi á undan og Bjarki og félagar þurftu að elta. Munurinn í fyrri hálfleik varð aldrei meiri en þrjú mörk, en svo mikill var hann þegar flautað var til hálfleiks. Þegar gegnið var til búningsherbergja var staðan 20-17, gestunum í vil.

Sama jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik, en Bjarki og félagar skoruðu fyrstu þrjú mörk hálfleiksins og jöfnuðu metin. Þeir komust svo yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum í stöðunni 24-23.

Eftir það var þetta sama sagan og í fyrri hálfleik þar sem heimamenn í Lemgo voru að elta. Gestirnir náðu fjögurra marka forskoti í stöðunni 34-30, en heimamenn gáfust ekki upp. Þeir jöfnuðu metin á ný þegar örfáar mínútur voru til leiksloka og niðurstaðan varð jafntefli, 37-37.

Bjarki Már var markahæsti maður vallarins með 15 mörk úr jafn mörgum skotum, en þar af komu sex af vítalínunni.

Lemgo situr í fjórða sæti B-riðils með níu stig eftir átta leiki, tveimur stigum minna en Nantes sem situr sæti ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×