Natasha er rússnesk en flutti til Íslands 2012. Hún segir fjölskyldu sína og vini í Rússlandi í áfalli.
„Við erum öll lömuð. Af því að við gátum ekki ímyndað okkur þetta. Þetta eru nágrannar okkar fjölskylda og vinir, ég var alltaf bara í afneitun, ég gat ekki trúað því,“ segir Natasha.
Það sé óskiljanlegt að þessar miklu frændþjóðir eigi í átökum.
„Þau tala rússnesku, við getum skilið úkraínsku, þetta er eins og fjölskylda sé að éta sig sjálfa. Það er mjög skrýtið,“ segir Natasha.
Hún telur að Rússar skammist sín margir fyrir aðgerðir stjórnvalda og segir vini sína úti í Rússlandi á leið á mótmæli gegn stríðsrekstrinum í kvöld, þrátt fyrir hættu á að vera handteknir.
„Það er búið að loka Rauða torginu og það má ekki pósta neitt um mótmæli og fólk er handtekið fyrir það að pósta eitthvað á samfélagsmiðlum. Það er líka bannað að vitna í erlenda fjölmiðla þannig að Rússland er lokað og fólk er bara „trapped“.“