Fjórir voru um borð vélarinnar TF-ABB þegar hún fórst við Þingvallarvatn í byrjun febrúar, flugmaður og þrír farþegar, og fundust lík þeirra þann 6. febrúar síðastliðinn eftir umfangsmikla leit.
Að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni er bannið sett á til að tryggja þau gögn sem er að finna í flakinu en lögregla rannsakar nú slysið.
„Bannið er sett til að tryggja að mikilvægum sönnunargögnum verði ekki raskað. Ákvörðun þessi jafngildir því að hald hafi verið lagt á flugvélarflakið á botni Þingvallavatns,“ segir í tilkynningunni.
Til stóð að ná flakinu úr vatninu fyrr í mánuðinum en ákveðið var að hætta aðgerðum þar vegna íss sem lagði á vatninu. Aðstæður við vatnið voru síðan aftur skoðaðar í dag en vatnið er enn ísi lagt og ekki að vænta að það opnist á næstunni, að sögn lögreglu.
„Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um að óviðkomandi hafi reynt að kafa að því en hins vegar er vitneskja um umræðu um slíkt meðal einhverra sem mögulega hafa hvorki þekkingu, búnað eða reynslu til að fást við köfun við jafn krefjandi aðstæður á því dýpi sem hér um ræðir,“ segir í tilkynningunni.
