Þetta var fimmta tap Derby í seinustu sex deildarleikjum og liðið er nú sex stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar liðið á átta leiki eftir.
Eins og flestum knattspyrnuáhugamönnum er kunnugt var 21 stig dregið af Derby snemma á tímabilinu eftir að félagið fór í greiðslustöðvun og því væri það ótrúlegt afrek ef liðinu tækist að halda sæti sínu í deildinni.
Derby tók forystuna gegn Blackburn eftir um hálftíma leik, en þrjú mörk í síðari hálfleik tryggðu heimamönnum í Blackburn 3-1 sigur.
Derby situr í næst neðsta sæti deildarinnar með 24 stig eftir 38 leiki. Eins og áður segir er liðið sex stigum frá öruggu sæti, en liðin sem sitja rétt fyrir ofan fallsvæðið eiga leik til góða.
Blackburn situr hins vegar í fjórða sæti deildarinnar með 61 stig og er á góðri leið með að tryggja sér umspilssæti um laust sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.