„Í heimsfaraldrinum varð alls kyns kennsla á netinu vinsælli og margir urðu opnari fyrir því að gera uppbyggilega heima í stofu og ég held að fólk muni halda því áfram,“ segir Eva Dögg Rúnarsdóttir annar stofnandi Rvk Ritual sem hefur haldið fjögurra vikna netnámskeiðið Self Mastery í rúm tvö ár.
„Við þekkjum ástandið sem fylgir því setja sjálfan sig neðarlega á forgangslistann í amstri lífsins og við viljum efla konur að setja sig í forgang og hafa þannig meira að gefa,“ segir Eva.

„Að vera með einhvers konar daglega iðkun eins og hugleiðslu, öndun eða mjúka hreyfingu sem er bara fyrir þig er svo valdeflandi,“ segir Dagný Berglind Gísladóttir hugleiðslukennari.
Námskeiðið segja þær vera fyrir huga, sál og líkama og sameina konur víða að úr heiminum þar sem það er bæði á netinu og á ensku.
„Þú þarft heldur ekki að sleppa því að vera skvísa til þess að hugleiða eða hætta í vinnunni og verða reikiheilari þó að þú byrjir í sjálfsvinnu,”
segir Dagný Berglind hugleiðslukennari. „Þessi öflugu, einföldu tól eins og hugleiðsla og djúpöndun eru fyrir alla og hafa svo róttæk áhrif á vellíðan og orku,” bætir hún við.
Netnámskeið sem kennir hugleiðslu
Á netnámskeiðinu, sem hefst á föstudaginn, eru sameinaðir ýmsir þættir heilsu sem gefa nemendum tækifæri til að líta inn á við og endurræsa sig. Auk hugleiðslu og öndunar er kennd jóga heimspeki, markmiðasetning, mataræði skoðað sem og daglegar venjur.
„Við nálgumst heilsu á heildrænan hátt og viljum vinna fyrst og fremst með að koma konum úr stanslausu streituástandi, því þá verður allt auðveldara, skemmtilegra og lífið meira djúsí.” segir Eva.

En hver er hugmyndin á bakvið Rvk ritual?
„Við stofnuðum fyrirtækið Rvk Ritual því okkur fannst vanta vettvang þar sem heilsa og hugleiðsla væru sett í fallegan búning og sett fram á nútímalegan hátt. Markmið okkar er að hjálpa fólki að minnka stress og bæta heilsu og vellíðan með ýmsum leiðum og gera það aðlaðandi.
Við byrjuðum einungis á netinu en síðan þá hefur þetta vaxið og nú erum við einnig komnar með vörulínu af jurtabætiefnum og snyrtivörum og höldum úti litlu stúdíói í Reykjavík.” segir Eva að lokum.