Erlendur Ingvarsson, bóndi í Skarði var að rýja á fullum krafti í gær, ásamt félaga sínum frá Næfurholti. Það tekur fjóra daga að rýja allar kindurnar á bænum. Sauðburðurinn á ekki að byrja alveg strax en ærin Hilda var eitthvað að drífa sig og hafði borið tveimur lömbum í gærmorgun þegar fjölskyldan í Skarði kom út í fjárhús. Heimasætunni á bænum þykir nú ekki leiðinlegt að vera búin að fá lömb en hún á nokkrar kindur í fjárhúsinu.
„Já, þær heita Sandra og Anna Hildur og svo á ég þrjár forystuær en þær heita Kanna, Panna og Skeið,“ segir Anna Sigríður Erlendsdóttir, 9 ár í Skarði. Hún er harðákveðin að verða bóndi þegar hún verðu stór. „Já, sauðfjárbóndi,“ segir hún án þess að hika.

Um 1100 fjár eru í Skarði en búið er það stærsta á Suðurlandi þegar sauðfé er annars vegar. Reiknað er með að um 1850 lömb fæðist í fjárhúsinu í vor en búið er að sónarskoða ærnar og telja í þeim. Bændurnir í Skarði eru þau Guðlaug Berglindi Guðgeirsdóttir og Erlendur Ingvarsson. Börnin þeirra eru Sumarliði 15 ára, Helga Fjóla er 12 ára og Anna Sigríður 9 ára eins og áður segir.
