Fótbolti

Courtois gagnrýnir aðferðir Ancelotti

Atli Arason skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Barcelona, setur boltann framhjá Thibaut Courtois, markverði Real Mardid, í leik liðana í gær.
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Barcelona, setur boltann framhjá Thibaut Courtois, markverði Real Mardid, í leik liðana í gær. Arroyo Moreno/Getty Images

Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid, hefur gagnrýnt taktík knattspyrnustjóra liðsins, Carlo Ancelotti, eftir tap Madrid gegn erkifjendunum í Barcelona í gær.

Madrid tapaði leiknum 4-0 þar sem Pierre Emerick-Aubameyang gerði tvö mörk ásamt sitthvoru markinu frá þeim Ronald Araujo og Ferran Torres.

„Barcelona fann alltof mikið af opnu plássi á leikvellinum. Við vorum ekki nógu þéttir fyrir og gátum því ekki komist hjá því að þeir skoruðu. Í fyrsta markinu voru þeir meira tilbúnir og fyrstir í boltann á nærstönginni. Í seinna markinu vorum við ekki með á nótunum. Eftir hálfleikshléið þá vorum við klárir í að koma til baka en eftir 10 sekúndur er Ferran Torres kominn einn í gegn á móti mér,“ sagði ósáttur Thibaut Courtois.

Madrid var án nokkurra lykilleikmanna í viðureigninni gegn Barcelona, þar á meðal framherjans Karim Benzema. Brasilíski sóknarmaðurinn Rodrygo spilaði þess í stað sem fölsk nía, sem er aðferð sem Courtois er ekki hrifin af hjá Madrid. Þann 4. febrúar féll Real Madrid úr spænska bikarnum eftir 1-0 tap gegn Athletic Bilbao, sem var síðasti leikur sem Real Mardid tapaði á Spáni.

„Við spiluðum síðast með falska níu í leiknum gegn Athletic Bilbao í bikarnum. Þar áttum við varla marktilraun og það sama var upp á teningnum í kvöld [í gær].“

„Taktíkin hefur ekki virkað í upphafi leikja eða í upphafi síðari hálfleiks. Við þurfum að ræða taktíkina betur innanborðs. Það er ekki rétt að gera það hér [í fjölmiðlum],“ sagði Courtois að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×