Þetta kom fram á fréttamannafundi lögreglunnar í Malmö í morgun. Lögreglustjórinn Petra Stenkula gaf þar frekari upplýsingar um árásina sem skók Svíþjóð í gær. Stenkula sagði tilkynninguna hafa borist klukkan 17:12 og hafi nemandinn verið handtekinn 17:22.
Lögreglustjórinn sagði að allt hafi virst vera með kyrrum kjörum þegar lögregla hafi komið á staðinn, en þá fengið upplýsingar um að árásin sem tilkynnt hafði verið um, hafi átt sér stað á þriðju hæðinni.
„Þar er frekar fljótt komið að særðri manneskju, árásarmanninum og svo annarri særðri manneskju,“ sagði Stenkula.
Konurnar, sem maðurinn réðst á með öxi og hníf, voru báðar á sextugsaldri, starfsmenn skólans, og létust síðar af sárum sínum.
Á fréttamannafundinum kom fram að nemandinn hafi ekki áður komið við sögu lögreglu og að hann hafi verið skráður til heimilis í Trelleborg.
Stenkula sagði ennfremur að mikill fjöldi fólks komi til með að verða yfirheyrður í dag og kallaði hún ennfremur eftir því að nemendur sendi lögreglu öll myndbönd sem kunna að hafa verið tekin upp í kringum þann tíma sem árásin var gerð.