Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 22-28 | Öruggur Valssigur í Garðabæ

Dagur Lárusson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Valur komst einu stigi frá toppi Olís-deildar kvenna í handbolta í dag er liðið hafði betur gegn Stjörnunni í Garðabænum.

Fyrir leikinn var Valur með 24 stig í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Fram sem tapaði gegn KA/Þór í dag.

Líkt og í síðasta leik Stjörnunnar gegn Fram þá byrjaði liðið virkilega vel og komst í 5-0 forystu þegar aðeins um sex mínútur voru liðnar af leiknum. Darija varði hvert skotið á fætur öðru og Helena óð í gegnum vörn Vals trekk í trekk en á þessum tímapunkti tók Ágúst, þjálfari Vals, leikhlé.

Eftir það leikhlé fór leikurinn að snúast við, þ.e.a.s Valur tók við sér og þegar um átján mínútur voru liðnar var staðan orðin jöfn, 7-7. Nákvæmlega það sama og gerðist í leik Stjörnunnar gegn Fram. Eftir þetta tók Valur forystuna og missti hana aldrei aftur. Staðan 10-14 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn spilaðist á mjög svipaðan máta og seinni helmingurinn af fyrri hálfleiknum þar sem Valur var með yfirhöndina og nánast alltaf 4-6 marka forystu. Elín Rósa var frábær í sóknarleik Vals en hún skoraði sjö mörk en Saga Sif Gísladóttir var einnig frábær í marki Vals en hún varði fjórtán skot í leiknum.

Lokatölur leiksins voru 22-28 en með sigrinum er Valur aðeins einu stigi á eftir Fram í efsta sæti deildarinnar.

Af hverju vann Valur?

Vörnin og markvarslan small saman um miðbik fyrri hálfleiksins og eftir það var það aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Hvert skotið á fætur öðru var varið af vörn Vals eða af Sögu í markinu. Ótal sóknir Stjörnunnar enduðu með vonlausu skoti en töpuðum bolta. Frábær vörn hjá Val í leiknum.

Hverjar stóðu upp úr?

Elín Rósa var markahæst í liði Vals með sjö mörk en Helena var markahæst í liði Stjörnunnar með átta mörk. Það var þó líklega Saga Sif í marki Vals sem var best á vellinum með sín fjórtán varin skot.

Hvað fór illa?

Eftir fyrstu tíu mínútur leiksins var Stjarnan í stökustu vandræðum með að finna lausn á frábærum varnarleik Vals.

Hvað gerist næst?

Eftir viku fer Stjarnan til eyja og spila við ÍBV en daginn eftir fer Valur í heimsókn til Hauka.

Ágúst Jóhannsson: Værukærð í byrjun en fórum svo í gang

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður eftir sigur síns liðs gegn Stjörnunni í dag.

,,Ég er mjög ánægður með frammistöðuna, varnarleikurinn var virkilega góður fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar,” byrjaði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, að segja eftir leik.

,,Eins og ég segi, vörnin mjög góð og markvarslan líka en svo náðum við að keyra vel í bakið á þeim og fannst við heilt yfir spila mjög vel,” hélt Ágúst áfram.

Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og komst í 5-0 forystu en þá tók Ágúst leikhlé.

,,Nei það var nú ekki áherslubreytingar í því leikhlé. Við byrjuðum bara með smá værukærð sem ég var ekkert alltof ánægður með en þá einmitt stigum við aðeins á bensíngjöfina og fórum í gang hægt og rólega og vorum síðan yfir með fjórum mörkum í hálfleiknum.”

Ágúst sagði að lykilinn að sigrinum hafði verið framlag frá mörgum leikmönnum.

,,Ég held að lykilinn að þessum sigri hafi verið það að við vorum að fá framlag frá mörgum leikmönnum. Við vorum til dæmis að fá Mariam aftur inn og það er mjög jákvætt.”

Mikil stemning var í Vals liðinu í leiknum og kórónaðist sú stemning er Signý Pála kom í markið undir loks leiksins, varði tvö skot við mikinn fögnuði liðsfélaga sinna.

,,Það er alltaf gaman að sjá svona stemningu í sínu liði og það er bara jákvætt fyrir framhaldið,” endaði Ágúst á að segja.

Hrannar Guðmundsson: Brotnum niður við áhlaup

,,Ég er gríðarlega svekktur, byrjuðum leikinn virkilega vel eins og í síðasta leik gegn Fram en síðan missum við dampinn,” byrjaði Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að segja í viðtali eftir leik.

,,Við byrjuðum líka vel í seinni hálfleiknum, vorum að fá góð færi og að sama skapi var vörnin að standast ágætlega en svo aftur, rétt eins og í fyrri hálfleik, eftir tíu mínútur þá missum við þetta niður,” hélt Hrannar áfram.

Stjarnan komst einnig í 5-0 fyrstu gegn Fram í miðri viku en missti þá forystu niður á svipaðan máta. Hrannar vill meina að í þessum tilvikum hafi liðið verið að brotna þegar kemur áhlaup hjá hinu liðinu.

,,Nei ég svo sem veit ekki hvað gerist í þessum leik sem gerðist líka í síðasta leik. Við kannski brotnum smá niður þegar kemur smá áhlaup hjá hinu liðinu, sem er samt í rauninni ekki áhlaup heldur bara venjulegur handboltaleikur. En annars veit ég það ekki, ég er bara mjög svekktur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira