Síðustu dagarnir í mars eru fram undan og eftir leysingar síðustu daga. Varla er snjó að sjá á höfuðborgarsvæðinu og svipaða sögu er að segja á Akureyri þar sem enn má þó sjá gráar snjóleifar víða.
Það stefnir í að landsmenn allir sjái til sólar á þriðjudaginn.
„Hætt er við ofbirtu og finnið til sólgleraugun í tíma. Viðkvæmir gætu þurft sólvörn,“ segir Einar Sveinbjörnsson. Hann segir að gula viðvörunin gæti breyst í appelsínugula eða jafnvel rauða við sólarlag.
„Horfið ekki af einskærri forvitni beint í sólina og fylgist vel með veðurspám.“
Þótt fólk ætti mögulega að hafa sólgleraugun við höndina er ekki tímabært að finna til stuttbuxurnar. Hitastig á landinu á þriðjudaginn verður rétt yfir frostmarki.
Annars eru 24 dagar í sumardaginn fyrsta sem ber upp 21. apríl í ár, vikunni eftir páska. Vinnuvikur hins almenna launþega eru því aðeins þrír dagar bæði vikuna fyrir og eftir páskahelgina.