Að því er kemur fram í frétt Reuters um málið greinast nú um milljón tilfelli á tveggja daga fresti, langflest þeirra í Suður-Kóreu. Að meðaltali látast um þrjú hundruð manns á dag vegna Covid í Suður-Kóreu og hefur líkbrennslustöðum verið gert að starfa lengur að beiðni yfirvalda.
Faraldurinn er sömuleiðis í uppsveiflu í Kína en landið hefur komið tiltölulega vel út úr fyrri bylgjum faraldursins með því að beita útgöngubönnum og víðtækum skimunum. Það sem af er ári hafa rúmlega 45 þúsund tilfelli greinst í Kína, fleiri tilfelli en greindust allt árið 2021. Enn er um tiltölulega fá tilfelli að ræða en kínversk yfirvöld hafa áður gripið til aðgerða að minna tilefni.
Tilkynnt var um útgöngubann í Shanghai á dögunum vegna veirunnar en um 26 milljón manns búa í borginni. Víðtækum skimunum hefur verið beitt en rúmlega níu milljón manns höfðu farið í sýnatöku í dag. Þá hafa byggingarhúsnæði, íbúðir og fjölfarnir staðir verið sótthreinsaðar til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.
Tilfellum hefur fjölgað hratt í borginni og byrjuðu yfirvöld þar í landi á því að loka nokkrum svæðum í vesturhluta Shanghai í morgun, tveimur dögum á undan áætlun. Svæðum í austurhluta borgarinnar hefur verið lokað frá því á mánudag.
Ljóst er að lokanirnar í Shanghai munu hafa töluverð áhrif á efnahag Kína en yfirvöld í borginni hafa tilkynnt um skattendurgreiðslu, niðurgreidda leigu og tímabundin lán til fyrirtækja, að því er kemur fram í frétt AP um málið.