Samkvæmt heimildum Vísis gerðist atvikið þar sem ummælin féllu eftir miðnætti aðfaranótt föstudags þegar sumir voru við skál. Hugmyndin var að fá mynd af hópi Sigurði Inga með hópi starfsmanna Bændasamtakanna.
Upp kom sú hugmynd að þeir myndu halda á Vigdísi á mynd en þá sagði Sigurður Ingi eitthvað á þá leið: Á að lyfta þeirri svörtu? Hann forðaði sér við svo búið af vettvangi.
Fjallað var um málið um helgina og sagði Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, algjört bull að ráðherrann hefði látið slík orð falla. Hann hefði sagst ekki vilja halda á Sjálfstæðismanni.
„Þar voru afar særandi ummæli látin falla og heyrði bæði ég það sem og starfsfólk samtakanna. Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það,“ segir Vigdís.
Nokkrir þingmenn hafa tjáð sig við færslu Vigdísar og sýna henni stuðning.
„Það skiptir máli að öflug kona eins og þú svo sannarlega ert lúffir ekki fyrir gaslýsingu eins og þeirri sem borið hefur á. Það er mjög mikilvægt og hafðu þakkir fyrir,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Hlýjar kveðjur til þín kæra Vigdís,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
„Þú ert hetja,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
„Mikilvægt að þú segir söguna eins og hún er. Miður mín að heyra af þessu,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendir Vigdísi hjarta.
Ekki hefur náðst í Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra eða Ingveldi Sæmundsdóttur aðstoðarmann hennar í dag þrátt fyrir endurteknar tilraunir.
Þingfundur hefst á Alþingi klukkan 15 með óundirbúnum fyrirspurnum. Má telja líklegt að málið beri á góma á þinginu í dag.
Uppfært klukkan 15:11