Málið var tekið upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála, hvort hún ætlaði að fara fram á afsögn Sigurðar Inga. Ummælin hafi verið rasísk, niðrandi og særandi.
„Ummælin sem voru látin falla teljast áreitni í skilningi laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og falla þannig undir bann við mismunun samkvæmt lögum,“ sagði Halldóra.

Katrín vísaði til þess að Sigurður Ingi hefði beðist afsökunar á orðum sínum.
„Sú afsökunarbeiðni endurspeglar þá afstöðu hans að ummælin hafi verið röng og þau hefðu ekki átt að falla enda óásættanleg með öllu,“ sagði Katrín.
„Við gerum þá kröfu í íslensku samfélagi að öllum sé sýnd virðing í hvívetna og að á ráðherrum í ríkisstjórn hvíli ríkari krafa og undir henni eigum við ráðherrar að standa. Þegar mönnum verður á og þeir gera mistök skiptir hins vegar máli að þeir stígi fram og biðjist afsökunar með skýrum hætti sem innviðaráðherra hæstvirtur hefur gert.“
Halldóra spurði hvort afsökunarbeiðni væri nóg ef ráðherra bryti lög. Hvort það væru rétt skilaboð inn í framtíðina?
„Það liggur algerlega fyrir að þau ummæli sem vitnað er til voru óásættanleg. Ég rengi ekki orð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í þeim efnum en við verðum líka að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar eins og hæstvirtur iðnaðarráðherra hefur gert með mjög skýrum hætti.“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Katrínu nánar út í málið. Hann kafaði nánar í atburðarásina. Það væri ekki svo að Sigurður Ingi hefði stigið fram brotinn og beygður yfir því að hafa viðhaft leiðinleg ummæli.
„Fyrst svaraði pólitískur aðstoðarmaður ráðherra aðspurður af fjölmiðlum sem höfðu verið að elta þetta mál alla helgina og sagði orðrétt: „Þetta er bull“ og ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki að skoða atburðarásina í þessu máli. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki að skoða afsökunarbeiðni ráðherrans í ljósi þessarar atburðarásar allra sem ég er að rekja og ég velti því fyrir mér hvort þessi gaslýsing sem birtist okkur um helgina, hvort hún hljóti ekki að kalla á það að hæstvortir forsætisráðherra svari hér með aðeins efnismeiri hætti. Því eins leiðinlegt og mér þykir að standa hér í þessum ræðustól og tala um þetta þá er það alveg gríðarlega mikilvægt.“

Katrín sagðist ekki sjá ástæðu til að draga heilindi afsökunarbeiðninnar í efa. Hún þyrfti þó að vísa vangaveltum Sigmars varðandi Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmann ráðherra, til innviðaráðherra.
Ekki hefur náðst í Ingveldi í dag vegna afdráttarlausra fullyrðinga hennar um helgina að það væri bull að Sigurður Ingi hefði sagt þau orð sem hann hefur síðan viðurkennt að hafa látið falla, og beðist afsökunar á.