Í ályktun frá félaginu, sem samþykkt var í gær, segir að það fordæmi harkalega þau ummæli sem innviðaráðherra hafi látið falla. Hafi þau falið í sér niðrandi orðaval um húðlit hennar.
„Ungir jafnaðarmenn standa með Vigdísi Häsler, trúa hennar frásögn og annarra starfsmanna Bændasamtakanna og krefjast afsagnar innviðaráðherra sem sýndi með orðum sínum rasískt viðhorf sem á ekki að viðgangast í íslensku samfélagi. Ungir jafnaðarmenn fordæma jafnframt framkomu aðstoðarmanns ráðherra [Ingveldar Sæmundsdóttur] í málinu sem neitaði því að ummælin hefðu fallið, veitti fjölmiðlum misvísandi upplýsingar og gerði þar með lítið úr ummælunum og upplifun Vigdísar sem ummælin beindust að,“ segir í ályktuninni.
Yfirgaf fljótlega samkomuna
Sigurður Ingi baðst innilegrar afsökunar á orðunum í færslu á Facebook í gær. Sagðist hann hafa látið óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.
Samkvæmt heimildum Vísis gerðist atvikið þar sem ummælin féllu eftir miðnætti aðfaranótt föstudags þegar sumir voru við skál. Var þá hugmyndin að fá mynd af hópi Sigurðar Inga með hópi starfsmanna Bændasamtakanna. Í tengslum við myndatökuna kom þá upp sú hugmynd að þeir myndu halda á Vigdísi á mynd en þá sagði Sigurður Ingi eitthvað á þá leið: „Á að lyfta þeirri svörtu?“ Sigurður yfirgaf samkomuna fljótlega eftir þetta.
Að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um málið í gærkvöldi.
Setja í samhengi við kosningabaráttuna í borginni 2014
Í ályktun Ungra jafnaðarmanna segir ennfremur að óumflýjanlegt sé að setja ummæli ráðherrans í samhengi við rasíska kosningabaráttu Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum árið 2014 og tilraunir ríkisstjórnarinnar til að herða enn á útlendingalöggjöf í landinu.
„Þá furða Ungir jafnaðarmenn sig á framgöngu forsætisráðherra, sem fer með jafnréttis- og mannréttindamál í ríkisstjórn, en í dag vék hún sér undan því að svara spurningum um hvort ummæli innviðaráðherra samræmdust siðareglum ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi. Það eru vonbrigði að forsætisráðherra Íslands taki ekki afdráttarlausa afstöðu gegn rasisma,“ segir í ályktuninni.