Þetta sagði Katrín að loknum ríkisstjórnarfundi í dag eftir að Sigurður Ingi hafnaði því að tjá sig frekar um málið við fjölmiðla.
„Nú var ég ekki vitni af þessum ummælum en las frásögn framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í gær og rengi hennar frásögn ekki. Það sem ég les út úr þessari frásögn er að þessi ummæli hafi verið algjörlega óásættanleg, Sigurður Ingi baðst síðan afsökunar síðar í gær og lýsti þar því að hann sæi mjög eftir þessum ummælum.“
Katrín sagðist ekki vita hver umrædd ummæli voru að öðru leyti en það sem hún geti dregið út úr lýsingu Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.
Þannig þú skilur það þá að þau hafi verið rasísk?
„Já, hún vitnar þar til þess að þar sé talað um kynþátt og kyn.“
Þannig að þetta voru rasísk ummæli?
„Ég met það þannig að þessi ummæli hafi verið eins og ég sagði óásættanleg.“
En óásættanleg að því leytinu til að þau væru rasísk?
„Ja, ef því ef þau snerust um kynþátt og kyn eins og hún lýsir,“ bætti Katrín við.
Hvorki Vigdís né Sigurður Ingi hafa greint nánar frá ummælunum. Samkvæmt vitnum á Sigurður Ingi að hafa spurt „Á að lyfta þeirri svörtu?“ þegar sú hugmynd kviknaði að halda á Vigdísi í myndatöku á Búnaðarþinginu.
Fór yfir málið með Sigurði Inga
Aðspurð um það hvort henni þyki stætt að Sigurður Ingi sitji áfram í ríkisstjórn eftir þetta atvik sagði Katrín að hann hafi beðist afsökunar og geti væntanlega sjálfur farið betur yfir málið í samtali við fjölmiðla. Þá sagðist hún hafa farið yfir málið með Sigurði Inga í gær. Málið hafi ekki verið rætt á ríkisstjórnarfundi í dag og svona mál séu gjarnan ekki á dagskrá ríkisstjórnarfunda.
Aðspurð um það hvort einhver hafi kallað eftir því við hana að ríkisstjórnarsamstarfinu yrði slitið ef Sigurður Ingi ætli að sitja áfram svaraði Katrín að slíkt hafi ekki verið rætt á vettvangi Vinstri grænna.
Verða afleiðingarnar þá engar? Vegna þess að það hefur líka verið talað um að ef afleiðingarnar verði engar sendi þau skilaboð út í samfélagið að svona ummæli séu í lagi.
„Hann hefur beðist afsökunar á sínum ummælum sem bendir til þess að honum finnist þau ekki í lagi. Það er alveg skýrt af hans hálfu út frá hans yfirlýsingu í gær, þannig að það er enginn sem segir að þetta sé lagi,“ sagði Katrín.