Fyrir tæplega ári tilkynnti knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, breytingar á fyrirkomulagi Evrópukeppna á vegum sambandsins. Tekur fyrirkomulagið gildi árið 2024 þegar núverandi sjónvarpssamningur rennur sitt skeið. Nýja fyrirkomulagið gengur undir vinnuheitinu „svissneska kerfið.“
Á það rætur rekja til Zurich í Sviss. Það hefur þó ekkert með fótbolta að gera en kerfið kemur úr skák. Í grunninn snýst þetta um að fjölga leikjum liða í Meistaradeild Evrópu.
Hér að neðan má sjá helstu breytingar á keppni þeirra bestu.
- Liðum fjölgar um fjögur: Voru 32 en verða 36.
- Ein deild (einn riðill). Svipað og þekkist í EuroLeague í körfuboltanum, þar eru þó aðeins 18 lið.
- Tíu leikir gegn tíu mismunandi mótherjum: Alls fimm heima- og fimm útileikir.
- Lið verða sett í fjóra styrkleikaflokka: Hvert lið mætir liðum úr öllum fjórum styrkleikaflokkum.
- Efstu átta liðin fara áfram í útsláttarkeppni með hefðbundnu sniði eins og þekkist nú.
- Liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um hvaða lið myndu fylgja efstu átta liðunum í 16-liða úrslit.
- Liðin sem myndu falla úr leik í umspilinu færu í Evrópudeildina.
- Lokastaða riðilsins hefur áhrif á hver mætir hverjum í útsláttarkeppninni: 1. sæti myndi mæta 16. sæti og koll af kolli.
Sama mun eiga við um Evrópu- og Sambandsdeild UEFA. Í Evrópudeild yrðu átta leikir og svo útsláttarkeppni á meðan um sex leiki væri að ræða í Sambandsdeildinni.
UEFA fundar nú og þar verður rætt að hleypa alltaf tveimur félögum - sem ekki hefðu unnið sér inn þátttöku með árangri heima fyrir - inn í keppnina vegna árangurs þeirra í gegnum söguna.
Þannig gæti til að mynda Manchester United endað um miðja deild í Englandi en komist í Meistaradeildina því liðið hefur í gegnum tíðina tekið oftar þátt og náð betri árangri en önnur lið Evrópu sem ekki kæmust í keppnina.
UEFA is expected to approve new rules today including a proposal to reserve two places in the Champions League based on historic performance. pic.twitter.com/z92ntmxYOn
— Sky Sports News (@SkySportsNews) April 7, 2022
Ekki kemur fram hvort frekari breytingar verði á Meistaradeild Evrópu kvenna en þar var hefðbundin riðlakeppni aðeins tekin upp á yfirstandandi tímabili.
Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.