Eyjakonur höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og náðu fjögurra marka forskoti í stöðunni 8-4 þegar um stundarfjórðungur var búinn af leiknum. Þær náðu mest sjö marka forskoti í stöðunni 12-5, en gestirnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk áður en gengið var til búningsherbergja, staðan 14-10.
Gestirnir í Fram unnu upp forskot Eyjakvenna snemma í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í eitt mark. Nær komust þær þó ekki og Eyjakonur héldu eins til tveggja marka forystu út leikinn. ÍBV vann að lokum tveggja marka sigur, 24-22, gegn deildarmeisturum Fram og taka því gott veganesti með sér í úrslitakeppnina.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæsti leikmaður vallarins með átta mörk fyrir ÍBV í dag, en Þórey Rósa Stefánsdóttir var atkvæðamest í liði Fram með fimm mörk.
Fram endar tímabilið því í efsta sæti deildarinnar með 31 stig. Eyjakonur enda með 25 stig í fjórða sæti.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.