Dean Smith, stjóri Norwich, var svekktur í leikslok og segir lærisveina sína hafa brugðist algjörlega í öllum mörkum Portúgalans snjalla.
„Þetta var góð frammistaða hjá okkur en við getum ekki gefið svona mörk. Þetta voru einstaklingsmistök og tvö föst leikatriði. Við hefðum líka getað gert betur úr okkar færum en enginn getur gagnrýnt hugarfarið okkar,“ sagði Smith í leikslok og fór yfir þrennu Ronaldo.
„Ronaldo var munurinn á liðunum en við gefum honum fyrstu tvö mörkin á silfurfati og svo á Tim að verja aukaspyrnuna. Ronaldo mun fá fyrirsagnirnar fyrir þrennuna og réttilega. En við hjálpuðum honum. Við vitum að við getum gert betur gegn honum.“
Fall blasir við Norwich en Smith segir sitt lið muni berjast til síðasta blóðdropa en liðið kom til baka og jafnaði metin í 2-2 eftir að hafa lent 2-0 undir í fyrri hálfleik á Old Trafford í dag.
„Ég var viss um að við myndum vinna leikinn eftir að við náðum að jafna svo þetta er virkilega svekkjandi. Við ætlum að berjast fyrir tilveru okkar í deildinni,“ sagði Smith.