Dagur B. Eggertsson, oddviti og borgarstjóri, kynnti kosningaáherslur flokksins í Gamla bíó en hann segir stefnuna skýra. Þá sé fólk sammála því að Reykjavík sé á réttri leið með Samfylkinguna í broddi fylkingar.
Að hans sögn munu komandi kosningar snúast um hvort nýjar lausnir í samgöngumálum á borð við Borgarlínu nái fram að ganga eða hvort þær stöðvist, hvernig framtíð Miklubrautar og Sæbrautar í stokk verður.
Hönnun Borgarlínu sé þegar vel á veg komin og framkvæmdir við hana hefjast innan árs.
Þá snúist kosningarnar um hvort uppbygging óhagnaðadrifins húsnæðis haldi áfram.
„Hvort við höldum áfram kraftmikilli uppbyggingu íbúðarhúsnæðis eða hvort það verði rifið í handbremsuna með því að dreifa byggð,“ segir Dagur. Í tilkynningu um málið er vísað til þess að nú þegar hafi verið gerðum samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið en nú þurfi húsnæðissáttmála.
Samfylkingin vill tvöfalda fyrri áætlanir um uppbyggingu með því að byggja tíu þúsund óbúðir á næstu fimm árum. Takist það verði það met en flokkurinn segir það mögulegt með samstilltu átaki.

Þar að auki verði tekist á um hvort það eigi að fjárfesta í hverfum í formi íþróttamannvirkja, skóla og sundlauga. „Eða hvort allt það fjármagn verði sogað í burtu og sett í að byggja ný hverfi frá grunni utan borgarmarkanna,“ segir Dagur.
„Við höfum einbeitt okkur að því á undanförnum árum að byggja upp þétta, líflega og áhugaverða borg fyrir alla Reykvíkinga. Spurningin er hvaða fólki borgarbúar treysta best til að halda áfram á réttri leið,“ segir hann enn fremur.