Zelenskyy Úkraínuforseti þakkaði Bandaríkjastjórn fyrir aukinn stuðning upp á 800 milljónir dollara sem Joe Biden forseti Bandaríkjanna greindi frá í gær. Þeir fjármunir færu allir til vopnakaupa. Mikilvægt væri að hraða vopnasendingum til landsins vegna aukins þunga í hernaði Rússa í austur- og suðurhluta Úkraínu.

„Í suður- og austurhluta landsins heldur innrásarherinn áfram að gera allt sem í hans valdi stendur til að geta talað um einhverja sigra. Þeir eru að safna liði og flytja árásarherfylki inn í landið okkar," segir Zelenskyy.
Þótt Rússar segist hafa náð fullum yfirráðum yfir hafnarborginni Mariupol sem nú er rústir einar segja Zelenskyy og Pavlo Kyrylenko héraðsstjórinn í Donetsk héraði, sem borgin tilheyrir, að það sé af og frá.
„Orrustan um Mariupol heldur áfram. Það er ekki bara barist um Azovsta-verksmiðjuna, þar sem er varnarvirki okkar frábæru varnarliða, heldur eru einnig götubardagar í miðborginni
og skriðdrekabardagar eiga sér stað," segir héraðsstjórinn.
Tölur eru á reiki um hversu margir óbreyttir borgarar eru enn eftir í Mariupol sem sætt hefur stöðugum stórskotaliðs-, eldflauga og loftárásum Rússa allt frá upphafi stríðsins. Úkraínumenn segja að enn séu um 100 þúsund óbreyttir borgarar í borginni.
Reyna átti að koma um fimmtán hundruð manns þaðan í gær en einungis áttatíu manns tókst að komast til borgarinnar Zaporizhzhia í samnefndu nágrannahéraði. Hinn 61 árs gamli Yuriy Lulac var einn þeirra.
„Mariupol er hreint helvíti, það er ekki hægt að lýsa því. Rússarnir drepa fólk að ástæðulausu.
Ef heimurinn grípur ekki til aðgerða verður þetta eins í Zapoizhzhia. Það verður að gera eitthvað. Eins fljótt og mögulegt er," sagði Lulac.
Dmitriy Antipenko, kona hans og tengdafaðir höfðust við í kjallara fjölbýlishúss í Mariupol vikum saman og hættu sér ekki upp á yfirborðið fyrr en dró úr loftárásunum í gær.
„Það var bara hola eftir í staðinn fyrir níu hæða byggingu. Allir stigagangarnir voru gereyðilagðir," sagði Antipenko sem vart mátti mæla af sorg.
Nancy Pelosi forseti fultrúadeildar Bandaríkjaþings hét Úkraínumönnum enn frekari stuðningi eftir fund með Denys Shmyhal forsætisráðherra landsins í Washington í gær.
„Það sem Rússar eru að gera í Úkraínu stendur utan við siðmenntaða mannlega hegðun. Þetta er hræðilegt," sagði Pelosi lýsti því jafnframt yfir að Bandaríkjaþing muni samþykkja enn frekari aðstoð við Úkraínumenn í næstu viku.
Farið var ítarlega yfir stöðuna í Úkraínu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld: