Leikmennirnir sex voru valdir af dómnefnd úrvalsdeildarinnar í bland við kosningu almennings. Frægðarhöllin verðlaunar þá leikmenn sem hafa skarað fram úr síðan úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992. Viðurkenningin er sú æðsta sem úrvalsdeildin veitir leikmönnum, segir í tilkynningu frá deildinni.
Sergio Aguero
Sergio Aguero er markahæsti erlendi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Aguero skoraði 184 mörk í 275 leikjum fyrir Manchester City. Aguero kom til Englands tímabilið 2011/12 en hann lauk því tímabili með því að skora eitt sögufrægasta mark deildarinnar, sigurmarkið gegn QPR sem færði Manchester City sinn fyrsta úrvalsdeildartitill.
Didier Drogba
Didier Drogba gat skorað mörk í öllum regnbogans litum. Drogba vann úrvalsdeildina fjórum sinnum með Chelsea og fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður tímabilsins í tvígang. Drogba steig alltaf upp í stóru leikjunum en framherjinn skoraði alls 104 mörk í 254 leikjum í úrvalsdeildinni.
Paul Scholes
Paul Scholes vann úrvalsdeildina 11 sinnum með Manchester United en hann er af mörgum talin einn besti miðjumaður sem nokkurn tíman hefur spilað í deildinni. Scholes skoraði 107 mörk ásamt því að leggja upp önnur 55 í 499 úrvalsdeildar leikjum.
Ian Wright
Ian Wright kom til Arsenal frá Crystal Palace árið 1991 og var marahæsti leikmaður liðsins sex tímabil í röð. Wright varð síðar markahæsti leikmaður í sögu Arsenal áður en Thierry Henry bætti það met. Wright skoraði 113 mörk í 213 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
Peter Schmeichel
Peter Schmeichel er fyrsti markvörðurinn sem er vígður inn í frægðarhöllina. Schmeichel vann fimm úrvalsdeildartitla á einungis sjö tímabilum með Manchester United. Danski markvörðurinn hélt marki sínu hreinu 128 sinnum í 310 leikjum í úrvalsdeildinni. Hann er einnig eini markvörðurinn í sögu úrvalsdeildarinnar sem hefur unnið verðlaun sem besti leikmaður deildarinnar þegar hann fékk þau afhent eftir tímabilið 1995/96.
Vincent Kompany
Vincent Kompany var fenginn til Manchester City árið 2008 og spilaði hann lykilhlutverk í að umbreyta liðinu í það sem það er orðið í dag. Kompany vann úrvalsdeildina fjórum sinnum með City og var valinn besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2011/12. City hélt marki sínu hreinu 94 sinnum í þeim 265 leikjum sem Kompany spilaði.
Til að verða gjaldgengur í frægðarhöllina þá verður leikmaðurinn að hafa lagt skónna á hilluna fyrir áramót sama árs. Leikmennirnir sex bætast nú við þá 12 leikmenn sem var nú þegar búið að vígja inn í frægðarhöllina en verðlaunin voru fyrst veitt á síðasta ári. Leikmennirnir fá allir medalíu ásamt 10.000 punda framlag í góðgerðarmál af þeirra vali.