Fótbolti

Betis bikarmeistari eftir vítaspyrnukeppni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hinn fertugi Joaquin er fyrirliði bikarmeistara Betis.
Hinn fertugi Joaquin er fyrirliði bikarmeistara Betis. vísir/Getty

Real Betis varð í kvöld spænskur bikarmeistari þegar liðið hafði betur gegn Valencia í æsispennandi úrslitaleik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni.

Borja Iglesias náði forystunni fyrir Betis strax á elleftu mínútu eftir undirbúning Hector Bellerin.

Forystan entist stutt því eftir hálftíma leik skoraði Hugo Duro fyrir Valencia eftir stoðsendingu Ilaix Moriba.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því framlengt. Í framlengingunni var ekkert skorað og því ljóst að vítaspyrnukeppni þyrfti til að skera úr um sigurvegara.

Þar skoruðu allir úr sínum spyrnum nema Bandaríkjamaðurinn Yunus Musah, leikmaður Valencia og 6-5 sigur Betis því staðreynd.

Um er að ræða fyrsta titil Betis í fimmtán ár en liðið vann sömu keppni árið 2005. Þetta er þriðji bikarmeistaratitill Betis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×