Veður

Hægur vindur á landinu næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er hita á bilinu fimm til tíu stig í dag.
Spáð er hita á bilinu fimm til tíu stig í dag. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir hægan vind um allt land næstu daga. Lengst af verður skýjað en sólarglennur á milli og er einkum að sjá að á Suðausturlandi verði einna bjartast.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þótt hitatölur fari ekki mikið yfir tíu stigin þar sem best láti að deginum sé það samt sem áður vel yfir meðalhita árstímans. Megum við því vel við una. Spáð er hita á bilinu fimm til tíu stig í dag.

„Veðurspá sem nær tíu daga er búin að vera að gefa til kynna að um helgina muni kólna. Hvort svo verður á eftir að koma í ljós en alloft kemur kafli í maí þar sem norðanáttin nær yfirhöndinni með kulda og úrkoma sem fellur á norðanverðu landinu fellur oft sem snjókoma eða slydda,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákortið fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðvestan 3-8 m/s, skýjað og víða dálítil súld eða rigning öðru hverju. Hiti 2 til 9 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag: Hæg breytileg átt, skýjað og sums staðar lítilsháttar væta. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Vestlæg átt og lítilsháttar rigning norðantil, en bjartviðri suðaustanlands. Hiti 6 til 12 stig.

Á laugardag: Suðvestanátt, úrkomulítið og milt veður.

Á sunnudag: Snýst líklega í norðanátt með kólnandi veðri og éljum fyrir norðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×