Lecce vann 2-0 sigur gegn Pisa í dag með mörkum Fabio Lucioni á 18. mínútu og Pancrazio Faragó á 85. mínútu.
Þórir sat að þessu sinni allan tímann á varamannabekknum líkt og Hjörtur Hermannsson hjá Pisa sem hefði með sigri getað komist upp fyrir Lecce.
Staðan í toppbaráttunni er afar spennandi en tvö lið sem eru með í henni eiga enn eftir að spila í dag. Lecce er hins vegar með pálmann í höndunum og á bara eftir leiki við tvö neðstu liðin; Vicenza á útivelli á laugardaginn og svo Pordenone á heimavelli.
Lecce er efst með 68 stig en næstu tvö lið, Cremonese og Monza, töpuðu bæði í dag. Cremonese er með 66 stig og Monza 64. Benevento er í 4. sæti með 63 stig en á leik til góða. Pisa er einnig með 63 stig og Brescia er svo með 62 stig og leik til góða. Efstu tvö liðin komast beint upp í A-deildina en liðiðn í 3.-8. sæti fara í umspil.