Þetta kom fram í spjalli Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings, við Fótbolti.net. Þar kemur ekki fram nákvæmlega hvað kom fyrir Pablo nema að hann hafi fengið „smá í hnéð eftir samstuð á æfingu.“
„Hann fer í myndatöku á morgun. Vonandi kemur í ljós að það er ekkert alvarlegt í gangi. Hann æfði ekkert með okkur fyrir leikinn í gær og var ekki klár í að spila þann leik,“ sagði Arnar um stöðuna á Pablo.
Miðjumaðurinn frá El Salvador var í leikbanni í fyrstu umferð Bestu deildarinnar er Víkingur lagði FH í Víkinni. Hann var svo frá vegna meiðsla þegar Víkingar töpuðu 3-0 fyrir ÍA um liðna helgi.
Mikilvægi Pablo er öllum ljóst en hann spilaði 21 deildarleik af 22 er Víkingur varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð. Þá var hann í lykilhlutverki er liðið varð bikarmeistari.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.