Handbolti

„Þið gátuð ekki notað mig. Sjáið þið!“

Sindri Sverrisson skrifar
Darija Zecevic fagnar eftir eina af mörgum markvörslum sínum í Vestmannaeyjum í gærkvöld. Hún verður áfram í marki Stjörnunnar á næstu leiktíð.
Darija Zecevic fagnar eftir eina af mörgum markvörslum sínum í Vestmannaeyjum í gærkvöld. Hún verður áfram í marki Stjörnunnar á næstu leiktíð. Stöð 2 Sport/Stjarnan

„Darija Zecevic, hún elskar að spila í Vestmannaeyjum,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir í Seinni bylgjunni í gærkvöld þegar talið barst að hetju Stjörnunnar í sigrinum í Vestmannaeyjum í gærkvöld.

Stjarnan vann ÍBV 28-22 og er því 1-0 yfir í einvíg liðanna í 6-liða úrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta. Zecevic varði 41% skota sem hún fékk á sig í leiknum, alls 15 skot, og átti stóran þátt í sigrinum.

Zecevic, sem er 24 ára og frá Svartfjallalandi, kom fyrst til Íslands þegar hún gekk í raðir ÍBV sumarið 2019. Í Eyjum stóð hún hins vegar í skugganum af Mörtu Wawrzynkowska og fór að lokum til Stjörnunnar í fyrra.

„Það er eins og hún hafi eitthvað að sanna,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested um frammistöðu Zecevic í gær. Svava gat vel ímyndað sér hvað Zecevic hefði hugsað með sér:

„Þið gátuð ekki notað mig. Sjáið þið! Ég er geggjuð.“

Klippa: Darija Zecevic mögnuð á gamla heimavellinum

Sunneva Einarsdóttir benti á að það væri alveg skiljanlegt að Zecevic hefði lítið spilað í ÍBV:

„Satt best að segja sá maður í raun og veru ekkert hvað hún gat áður en hún fór í Stjörnuna. Marta var náttúrulega frábær. Það var ástæða fyrir því að hún [Zecevic] var ekki að spila. En svo blómstraði hún bara í Stjörnunni. Hún er búin að eiga frábært tímabil,“ sagði Sunneva en innslagið má sjá hér að ofan.

Zecevic skrifaði á dögunum undir framlengingu á samningi sínum við Stjörnuna og verður því áfram í marki liðsins á næstu leiktíð.

Úrslitakeppnin heldur áfram á morgun þegar Stjarnan tekur á móti ÍBV klukkan 16 þar sem Garðbæingar gætu tryggt sér sæti í undanúrslitum. Eyjakonur þurfa sigur til að fá oddaleik í Eyjum á þriðjudaginn.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×