Ten Hag var kynntur sem nýr stjóri United 21. apríl síðastliðinn. Hann tekur við liðinu eftir tímabilið. Rangnick stígur þá til hliðar en verður áfram í ráðgjafarhlutverki hjá United. Sá þýski bíður enn eftir að heyra í eftirmanni sínum.
„Ég er nokkuð viss um að hann sé með númerið mitt,“ sagði Rangnick. „Hann á enn nokkra leiki eftir með Ajax og við eigum enn þrjá leiki eftir hérna. Ég er meira en klár í að heyra í honum og skiptast á skoðunum þegar hann vill.“
United mætir Brentford á Old Trafford í kvöld, í síðasta heimaleik sínum á tímabilinu. Liðið mætir svo Brighton og Crystal Palace á útivelli í síðustu tveimur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar. United er í 6. sæti hennar.
Strákarnir hans Ten Hags í Ajax unnu 3-0 sigur á Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Ajax er með fjögurra stiga forskot á PSV Eindhoven á toppi deildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið.