Rangnick stýrði United í síðasta sinn á heimavelli þegar liðið vann öruggan sigur á Brentford, 3-0, í gær. United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og spilar að öllum líkindum í Evrópudeildinni á næsta tímabili.
Rangnick hættir sem stjóri United eftir tímabilið og við starfi hans tekur Erik ten Hag. Sá þýski verður United þó áfram innan handar í einhvers konar ráðgjafarhlutverki. Hann telur að bæta þurfi leikmannahóp United svo liðið geti aftur barist á toppnum.
„Fyrir utan markvarðastöðuna, við erum með þrjá frábæra markverði í David de Gea, Dean Henderson og Tom Heaton, eru leikmenn í öllum öðrum stöðum á förum. Ég vil ekki einblína á sérstakar stöður en þetta þarf að gerast við allt liðið,“ sagði Rangnick eftir leikinn í gær.
„Það er augljóst að nokkrir leikmenn munu fara og því þarf topp leikmenn í þeirra stað. Ef ég fulla trú á því að ef allir vinna saman getum við komið United aftur þangað sem liðið á að vera. Önnur lið þurftu bara tvo til þrjá félagaskiptaglugga til að komast í baráttuna en við þurfum topp leikmenn sem bæta liðið. Ef það gerist ætti ekki að taka svo langan tíma.“
Cristiano Ronaldo skoraði í gær og hefur verið heitur upp á síðkastið. Rangnick segir að Ten Hag ætti að halda Portúgalanum en hann þurfi meiri hjálp í framlínunni.
„Cristiano er ekki framherji. Hann vill ekki spila í þeirri stöðu og til að spila miðsvæðis þarftu tvo framherja. Þegar þú horfir á fótbolta á hæsta getustigi eru ekki mörg lið sem spila með tvo framherja. Þú ert annað hvort með platframherja [e. false nine] eða þrjá framherja. Þetta snýst ekki um stöðu. Liðið þarf tvo framherja sem gera það betra,“ sagði Rangnick.
United mætir Brighton og Crystal Palace á útivelli í síðustu tveimur leikjum sínum á tímabilinu.