Uppljóstranir kanadísku samtakanna Citizen Lab um að njósnað hafi verið um fleiri en sextíu manns sem tengjast hreyfingu katalónskra sjálfstæðissinna með svonefndu Pegasus-njósnaforriti ísraelska fyrirtækisins NSO Group hrundu af stað atburðarásinni sem leiddi til brottreksturs Esteban.
Í ljós kom að forritið hafði einnig verið notað til þess að njósna um síma Pedro Sánchez, forsætisráðherra, og Margaritu Robles, varnarmálaráðherra. Spænska dagblaðið El País segir ekki vitað hver njósnaði um ráðherrana en líklega hafi það verið erlend ríkisstjórn.
Njósnirnar áttu sér stað fyrir ári og fóru fram hjá leyniþjónustunni sem Esteban stýrir. Að minnsta kosti einn gagnaleki er talinn tengjast innbroti í síma Sánchez forsætisráðherra.
Málið hefur valdið miklum titringi innan spænsku ríkisstjórnarinnar. Flokkur katalónskra sjálfstæðissinna sem ver minnihlutastjórn Sánchez falli hét því að draga stuðning sinn til baka gripi stjórnin ekki til aðgerða til að endurvekja traust á leyniþjónstunni eftir uppljóstranirnar um njósnirnar í Katalóníu.
Persónuverndarstofnun Evrópusambandsins hefur kallað eftir því að bann verði lagt við notkun Pegasus-hugbúnaðarins vegna ásakana um að ríkisstjórnir sem keyptu forritið hafi misnotað það til þess að njósna um baráttufólk, blaðamenn og stjórnmálamenn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.