Jóhann Jóhannsson var eitt fremsta tónskáld okkar Íslendinga þar til hann lést á heimili sínu í Berlín árið 2018. Hann öðlaðist helst frægð fyrir kvikmyndatónlistarsmíði sína en hann samdi tónlist fyrir margar af stærstu myndum síðasta áratugar. Þar má nefna stórmyndirnar Sicario og Arrival.
Þá samdi hann tónlist fyrir kvikmynd Denis Villeneuve Blade Runner 2049 en hann ákvað á endanum að hafa enga tónlist í myndinni.
Tónlistin sem hann hafði samið fyrir myndina verður nú gefin út af rétthafa allrar tónlistar Jóhanns, Redbird music.
Því myndu aðdáendur Jóhanns eflaust fagna ef ekki væri fyrir útgáfuleiðina sem Redbird music valdi. Tónlistin verður gefin út sem NFT, sem kalla mætti einstakt stafrænt skírteini á íslensku.
Fyrirtækið greindi frá útgáfunni á Twitter en tilkynningin féll í grýttan jarðveg hjá aðdáendum Jóhanns.
Joi In The Rain X @tabithaswanson_ | @foundation : Coming soonhttps://t.co/8nCnIl1wAj pic.twitter.com/eHT3ITeLgZ
— Jóhann Jóhannsson (@JohannJohannss) May 13, 2022
Margir segja útgáfunu vera hróplega tilraun til að græða pening á verkum Jóhanns og sumir ganga svo langt að segja hana vanvirðingu við minningu hans.
NFT hefur dregið að sér mikla gagnrýni undanfarið líkt og aðrar bjálkakeðjulausnir. NFT-myndir hafa gengið kaupum og sölum á internetinu og þegar hæst stóð seldust þær á háar fjárhæðir. Nokkuð hefur þó dregið úr eftirspurn á sama tíma og framboð hefur aukist mikið.