Innlent

Fasteignamat tekur mikið stökk á milli ára

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fasteignamat fyrir árið 2023 hækkar umtalsvert á milli ára.
Fasteignamat fyrir árið 2023 hækkar umtalsvert á milli ára. Vísir/Vilhelm

Þjóðskrá hefur gefið út fasteignamat fyrir árið 2023. Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9 prósent á milli ára, sem er umtalsvert meiri hækkun á milli ára en undanfarin ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá þar sem vakin er athygli á því að fasteignamat fyrir árið 2023 sé komið út. Hægt er að fletta upp fasteignamati fyrir tiltekna fasteign á vef Þjóðskrár hér.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9 prósent frá yfirstandandi ári og verður 12.627 milljarðar króna.

Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 23,6 prósent á milli ára og verður alls 9.126 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 25,4 prósent á meðan fjölbýli hækkar um 21,6 prósent.

Hækkar mest í Hveragerði, minnst í Dalvíkurbyggð

Heildarfasteignmat í Hveragerði hækkar mest á milli ára.Vísir/Vilhelm

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 20,2 prósent en um 19,2 prósent á landsbyggðinni. Þar af er mest hækkun á Suðurlandi eða 22,4 prósent, um 19,3 prósent á Vestfjörðum, 18,8 prósent á Suðurnesjum og Norðurlandi-eystra, 18,1 prósent á Vesturlandi, 15,2 prósent á Norðurlandi-vestra og um 14,9 prósent á Austurlandi.


Hvað er fasteignamat og hvaða tilgangi þjónar það?

Fasteignamat er gangverð, umreiknað til staðgreiðslu, sem ætla má að eignin hefði haft í kaupum og sölum í febrúarmánuði. Tekur hið nýja fasteignamat gildi þann 31. desember næstkomandi.

Tilgangur fasteignamats er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda en fasteignamatið er stofn fasteignagjalda og erfðafjárskatts.


Af einstaka sveitarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest í Hveragerðisbæ eða um 32,3%, hækkun nemur 32,1% í Sveitarfélaginu Árborg og um 29,3% í Skorradalshreppi. Minnsta hækkun er í Dalvíkurbyggð eða um 8,1% og 9,3% í Dalabyggð og Skútustaðahreppi.

Sem fyrr segir er hækkunin umtalsvert meiri nú en fyrri ár. Árið 2020 hækkaði fasteignamat um 6,1 prósent á milli ára. Árið 2021 hækkaði það um 2,1 prósent á milli ára og í fyrra hækkaði það um 7,4 prósent á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×