Innlent

Ekki eðli­legt að nýr sól­pallur hækki skatt á ná­grannann

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sveitarstjóri Ölfuss segir fasteignagjöld ósanngjarnan skatt í eðli sínu og telur að skoða þurfi tekjumódel sveitarfélaga. Lækka þurfi skatta á heimilin í landinu.

Fasteignamat ársins 2023 var birt í gær en heildarmat fasteigna á Ísland hækkar um 19,9 prósent frá yfirstandandi ári.

Fasteignaskattur í Reykjavík er 0,18 prósent af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Í Kópavogi 0,20 prósent, 0,31 prósent í Ölfusi og 0,56 prósent á Ísafirði. Sveitarfélög munu mörg bregðast við hækkuninni með lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts.

Sveitarfélög beri ábyrgð

„Við höfum núna í fjögur ár lækkað stöðugt álagninguna á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu Ölfusi. Ég geri ráð fyrir því að núna þegar fasteignamat á sérbýli hækkar um 36 prósent þá grípi bæjarstjórn til þeirra aðgerða að lækka álagninguna á móti enda eru fasteignagjöldin ósanngjarn skattur í eðli sínu,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Hann segir eðlilegt að matið fylgi ytra verðmæti en að skoða þurfi tekjumódel sveitarfélaga.

„Og það er ekkert eðlilegt fyrirkomulag að þegar nágrannar þínir skipta um eldhúsinnréttingu eða byggja nýjan sólpall og gera sitt hús verðmætara að það hækki skattinn á þig við það að heildarmatið hækki. Ég held að það þurfi að fara yfir þetta. Það þarf að lækka skatta á heimilin í landinu.“

Þar beri sveitarfélögin mikla ábyrgð.

„Ekki bara með fasteignasköttunum heldur er það líka þannig að sveitarfélögin drógu lappirnar í skipulagsmálum. Bjuggu þannig til eftirspurn eftir lóðum undir íbúðarhúsnæði. Þessi aukna eftirspurn hækkaði síðan verðið á lóðunum sem er orðin ný tekjulind fyrir sveitarfélögin og hefur hækkað skatta á íslensk heimili verulega. Yfir þetta finnst mér við þurfa að nota þennan tímapunkt og fara yfir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×