Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í dag.
Helstu vendingar:
- Hersveitir Úkraínu standa frammi fyrir þungum bardögum í Austur-Úkraínu á meðan Úkraínumenn bíða frekari vopnasendinga frá Vesturlöndum. Vonast er til þess að vopnin geti hjálpað Úkraínumönnum á öðlast betri stöðu gegn Rússum.
- Í ræðu sem Vólódímir Selenskí, forseti Úkraínu, hélt fyrir þjóðþing Lúxemborgar fyrr í dag lýsti hann því yfir að Rússar hafi nú lagt undir sig 20% af landsvæði Úkraínu.
- Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir vopnasendingar Bandaríkjamanna til Úkraínu auka líkurnar á að þriðja ríkið dragist inn í átökin. Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, sakar Bandaríkin um að „hella olíu á eldinn“.
- Rússar hafa gert árás á lestarsamgöngur nærri Lviv, sem hafa verið notaðar til að flytja vopn frá bandamönnum og aðrir birgðir á átakasvæðin í landinu.
- BBC hefur rætt við íbúa í Kherson sem segjast hafa verið pyntaðir af Rússum.
- Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató, mun á næstu dögum boða fulltrúa Tyrklands, Svíþjóðar og Finnlands á fund í Brussel til að ræða andstöðu Tyrkja gegn aðildarumsóknum Svía og Finna.
