„Við erum auðvitað bara virkilega ánægð með þennan áfanga, það eru ekki öll mál sem að komast þarna í gegn,“ segir Magnús í samtali við Vísi en hann var oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum . Sigurður Örn Hilmarsson hæstaréttarlögmaður flytur mál Magnúsar og Guðmundar Gunnarssonar, frambjóðanda Viðreisnar, fyrir Mannréttindadómstólnum.
Kosningamálið svokallaða komst í hámæli síðasta haust eftir að grunur kom upp um að framkvæmd endurtalningar og meðferð kjörgagna hafi ekki verið lögum samkvæmt.
Afdrifarík endurtalning í kjördæminu leiddi mikillar hringekju við útdeilingu jöfnunarþingsæta í öllum kjördæmum landsins nema Norðausturkjördæmi. Í kjölfarið var kjörbréfanefnd skipuð til að meta hvort talning og meðhöndlun kjörgagna í Norðvesturkjördæmi hafi verið lögmæt, en meirihluti nefndarinnar lagði til að öll kjörbréf sem Landskjörstjórn gaf út verði samþykkt. Alþingi samþykkti síðan þá niðurstöðu.
Spurningar lagðar fyrir ríkið
Mál Magnúsar og Guðmundar snýr að þeirri stjórnskipulegu framkvæmd sem fór af stað í kjölfar rannsóknar kjörbréfanefndar á kosningum í Norðvesturkjördæmi og meðferð kjörbréfa þar. Samkvæmt stjórnarskránni sker Alþingi sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir.
Magnús telur þessa framkvæmd ekki í samræmi við meginreglur stjórnskipunarréttar Mannréttindadómstólsins. Hann telur því ágætis líkur á því að Mannréttindadómstóllinn dæmi sér í vil og vísar til sambærilegs máls fyrir dómstólnum þar sem belgísk yfirvöld voru dæmd brotleg.
Mannréttindadómstóllinn hefur nú lagt fram spurningar í tengslum við málið fyrir íslenska ríkið sem snúa réttindum Magnúsar og Guðmundar sem frambjóðendur í lýðræðiskosningum og leiða þeirra til að niðustöðu Alþingis hnekkt hérlendis.