Innlent

Einstaklingar hafi „farið í þannig ástand“ við handtöku að þeim var gefið róandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Upp hafa komið tilvik þar sem einstaklingar sem flytja á úr landi í fylgd hafa „farið í þannig ástand“ að nauðsynlegt hefur þótt að gefa viðkomandi róandi lyf. Þetta hefur verið gert til að koma í veg fyrir að viðkomandi skaði sjálfan sig eða aðra.

Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar um þvingaða lyfjagjöf við brottvísanir.

Þar segir einnig að einstaklingum sé ekki og hafi ekki verið gefin lyf gegn vilja þeirra til að auðvelda brottvísun, það er að segja til að viðkomandi sé meðfærilegri í flutningum.

Spurning Andrésar var svohljóðandi:

„Hefur fólki, sem sótti um alþjóðlega vernd en flutt var úr landi með aðstoð lögreglu, verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina?“

Í svari ráðherra, sem birtist á vef Alþingis í gær, segir að lyfjagjöf sé alltaf ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Þegar til lyfjagjafar kemur sé framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað.

Svar ráðherra í heild:

„Einstaklingum, sem fluttir hafa verið úr landi af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra, eru ekki og hafa ekki verið gefin lyf gegn vilja þeirra í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun þannig að viðkomandi sé meðfærilegur í flutningum. Hins vegar hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingur hefur við handtöku, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, farið í þannig ástand að nauðsynlegt hefur verið að gefa viðkomandi róandi lyf í þeim tilgangi að viðkomandi skaði hvorki sjálfan sig eða aðra. Slíkt er einungis og ávallt að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar, og er lyfjagjöfin þá framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni. Í slíkum aðstæðum er framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað þangað til ástand viðkomandi er metið þannig af lækni að óhætt sé að flytja viðkomandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×